Þjóðin vakin með kirkjuklukkum

Kirkjuklukkur Langholtskirkju voru meðal þeirra sem hringdu klukkan 7:15.
Kirkjuklukkur Langholtskirkju voru meðal þeirra sem hringdu klukkan 7:15. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn skyldi láta sér bregða þótt ómur af kirkjuklukkum bærist inn um gluggann fljótlega eftir klukkan sjö en með því vill þjóðkirkjan vekja athygli á átakninu Vaknaðu sem hófst í Hallgrímskirkju síðdegis í gær.

Forystukonur átaksins Á allra vörum óskuðu eftir því við biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, að kirkjan tæki þátt í átakinu með þeim hætti að kirkjuklukkum landsins yrði hringt snemma að morgni 2. september.

„Markmiðið er að vekja athygli á því máli sem þær setja nú í öndvegi – og vekja þjóðina í orðsins fyllstu merkingu – og það er: Eitt líf – forvarnir og fræðsla vegna vímuefnaneyslu ungmenna. Þær kalla átakið Vaknaðu og hvað er því táknrænna en sláttur kirkjuklukkna snemma að morgni?

Af þessu tilefni ritaði biskup bréf til presta og formanna sóknarnefnda og hvatti til þátttöku í þessu mikilvæga forvarnarátaki til að berjast gegn fíkniefnavandanum,“ segir á vef þjóðkirkjunnar. 

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir.
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átakið Á allra vör­um hófst í gær en að þessu sinni nýt­ur „Eitt líf“ stuðnings­ins. Þar hef­ur verið unnið óhefðbundið for­varn­ar­starf í grunn­skól­um lands­ins, sem vakið hef­ur mikla at­hygli. Starf­sem­in hófst eft­ir lát ungs drengs, Ein­ars Darra, í maí 2018, og bygg­ist á því að fræða börn og ung­menni, for­eldra þeirra og kenn­ara um þá hættu sem fylg­ir neyslu vímu­efna og lyf­seðils­skyldra lyfja.

„Átakið hefur þann markhóp að ná til grunnskólanemenda í 7. til 10. bekk ásamt foreldrum og kennurum barnanna. Markmiðið með átakinu er að sporna við misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum.

Flestar af þeim neikvæðu afleiðingum í hinum ýmsu birtingarmyndum sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur í för með sér má helst rekja til (er þó ekki algilt) þeirra sem eru á framhaldsskólaaldri og eldri. Sá aldurshópur er því hinn raunverulegi hópur sem við, forsvarsmenn Eitt líf-átaksins, höfum áhyggjur af.

Hins vegar er talið vænlegra til árangurs, til að sporna við misnotkun á lyfjum og/eða fíkniefnum, að ná til ungmenna áður en þau prófa, samanborið við að ná til þeirra eftir að þau hafa prófað og þar með meira verið að eiga við íhlutun (þótt slíkt sé einnig mjög mikilvægt). Við höfum einnig áhyggjur af því að niðurstöður rannsókna meðal grunnskólanemenda á Íslandi sýna að verndandi þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn sín eru á laugardagskvöldum, samverustundir með fjölskyldu og framvegis eru að dala. Á meðan eru áhættuþættir eins og auðvelt aðgengi að lyfjum og fíkniefnum, vanlíðan, jákvæð birtingarmynd í menningu og fleira að aukast.

Þau lyf og fíkniefni sem ganga kaupum og sölum á svörtum markaði eru mörg hver virkilega ávanabindandi, þar er að finna sterkari lyf en áður hafa sést og markaðssetningu sem bæði höfðar til ungmenna og ýtir undir þá ranghugmynd að um saklaus efni og einfaldar lausnir, „quick fix“, við kvíða, betri einbeitingu, vellíðan og svo framvegis sé að ræða.

Slík staðreynd ýtir enn frekar undir að vænlegra sé að ná til ungmenna áður en þau prófa. Fikt, og þá sérstaklega þegar um sterk lyf er að ræða, getur í aðeins eitt skipti reynst dýrkeypt og óafturkræft. Þess ber þó að geta að stærstur hluti ungmenna er í góðum málum og því er ekki verið að alhæfa að þessi vandi eigi við alla en hann getur átt við hvern sem er og því þurfa allir að vera á varðbergi.

Birtingarmyndir vandans sem við eigum við að etja, hvað varðar misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum, vekur óhug. Hér á eftir verður farið yfir hluta af þeim birtingarmyndum sem við höfum áhyggjur af. Þeir aðilar sem eiga í hlut og þekkja til málefnisins í eigin starfi taka undir áhyggjur okkar. Þess ber þó að geta að erfitt getur reynst að meta vanda í samfélaginu með spurningakönnunum, þar sem þeir sem misnota lyf og/eða fíkniefni eru ekki líklegir til að taka þátt né svara samviskusamlega,“ segir í tilkynningu.

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, Alma Möller landlæknir, Lilja D. …
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, Alma Möller landlæknir, Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert