„Ansi langt“ frá svo stórri heimsókn

„Það er nú orðið ansi langt síðan heimsókn af þessari …
„Það er nú orðið ansi langt síðan heimsókn af þessari stærðargráðu var síðast.“ AFP

„Í gær komu þrjár Osprey-vélar og þeim fylgdu tvær Hercules-vélar yfir hafið. Þessar Osprey-vélar eru bara hér til taks og hluti af hefðbundnum viðbúnaði. Þar að auki kom hingað C5-flutningavél með búnað og síðan eru þessar tvær sjúkraþyrlur,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, en undirbúningur fyrir komu Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, er nú í fullum gangi.

Aðspurður hvort viðbúnaður sé svipaður eða meiri en við aðrar heimsóknir sem þessa hingað til lands segir Ásgeir það erfitt að segja. „Það er nú orðið ansi langt síðan heimsókn af þessari stærðargráðu var síðast.“

Hvað hlutverk Landhelgisgæslunnar vegna heimsóknarinnar varðar segir Ásgeir það að vera til taks og aðstoðar.

„Við erum að veita þjónustu og stuðning á svæðinu í Keflavík og síðan kemur séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðið að öryggisgæslu, sem og flugdeildin með þyrlu.“

Von er á Mike Pence til landsins á morgun. Dagskrá varaforsetans hefur verið á reiki, til að mynda hvort hann þiggji hádegisverðarboð Guðna Th. Jóhannessonar á Bessastöðum. Eftir hádegi fundar Pence með Guðlaugi Þór Þórðarsyni í Höfða og loks með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert