„Eins og að hlaupa á eftir strætó“

Jóhannes Þór segir að von sé á að um tvær …
Jóhannes Þór segir að von sé á að um tvær milljónir ferðamanna heimsæki landið á árinu, litlu færri en árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ör vöxtur í ferðaþjónustu á Íslandi varð þess valdandi að erfitt var að móta stefnu fyrir hana. „Þetta var eins og að hlaupa á eftir strætó og biðja hann að stoppa. Nú er strætó a.m.k. á biðskyldu og við eigum séns á að komast inn. En hvert viljum við að hann fari?“

Þessa myndlíkingu notað Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, á hádegisfyrirlestrinum Flopp eða framtíð á vegum viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands í dag.

Hægt hefur á fjölgun ferðamanna undanfarin ár og er von á að fall WOW air auki enn á þá þróun fyrir þetta ár. Samt sem áður segir Jóhannes Þór að von sé á að um tvær milljónir ferðamanna heimsæki landið á árinu, litlu færri en árið 2017.

Fjöldinn sjálfur ekki markmiðið

„En fjöldinn sjálfur er ekki markmiðið,“ segir Jóhannes Þór. Brýnna sé að hver ferðamaður skilji meira eftir sig og vart hafi orðið við jákvæða þróun í sumar þegar gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu. „Mikið framboð á ódýrum flugfélögum er ekki endilega það besta fyrir íslenska ferðaþjónustu og efnahag.“

Þegar WOW air hafi orðið gjaldþrota hafi Ferðamálastofa gert greiningu á farþegahópnum og í ljós komið að farþegar WOW air féllu að meðaltali allra annarra flugfélaga en Icelandair, hvers farþegar borguðu meira fyrir flugmiðann, gistu lengur, fóru lengra út á land og keyptu meiri afþreyingu. Í kjölfar gjaldþrots WOW air hafi Icelandair svo flutt hærra hlutfall farþega til landsins með áðurnefndum jákvæðum afleiðingum.

Í ljósi fækkunar ferðamanna verði þó að gæta að því að sú jákvæða þróun sem orðið hefur undanfarin ár, svo sem í árstíðasveiflu, gangi ekki til baka og þar spili markaðssetning stórt hlutverk. Gera verði lengri ferðir þar sem farið er lengra út fyrir höfuðborgarsvæðið meira aðlaðandi, ellegar geti það haft slæm áhrif fyrir lítil ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.

Heimamenn um land allt njóti ávinnings

Jóhannes Þór segir að nú þegar hægt hafi á „strætó“ sé hægt að horfa til stefnumótunar og að stefnan nú sé að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun árið 2030. Áhersla verði lögð á arðsemi framar fjölda ferðamanna, að heimamenn um land allt njóti ávinnings, einstaka upplifun, gæði og fagmennsku og loks jafnvægi á milli verndar og hagnýtingar náttúrunnar.

Markmiðið sé að útgjöld ferðamanna verði 700 milljarðar á ári, 90% landsmanna hafi jákvætt viðhorf til íslenskrar ferðaþjónustu, álagsstýring á náttúruna sé virk og að meðmælastig gesta sé 75 eða hærra.

Jóhannes Þór segir meðmælastigið þó hafa hækkað „fáránlega mikið“ að undanförnu og sé nú 78. „Við höldum að allir séu ógeðslega óánægðir með hátt verð, að það sé sagan sem fólk fer með heim. Það sem hefur komið á daginn er hins vegar að meðmælastigið er rokið upp úr öllu valdi. Þótt hlutirnir séu dýrir eru menn ánægðir með gæði og þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert