Ekki að gera sig sætan fyrir Pence

Margir voru skoðunar þeirrar að skeggið á Guðlaugi þyrfti að …
Margir voru skoðunar þeirrar að skeggið á Guðlaugi þyrfti að fara. Ljósmynd/Aðsend

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur látið skeggið sem hann hefur skartað upp á síðkastið fjúka. Þykir tímasetningin nokkuð áhugaverð, atkvæðagreiðsla um þriðja orkupakka Evrópusambandsins var afgreidd í gær og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn á morgun.

Segir Guðlaugur í samtali við mbl.is hvorugt þó vera ástæðuna fyrir rakstrinum. Hann hafi ekki verið að gera sig sætan fyrir Pence eins og blaðamaður hafi haldið, heldur hafi hann einfaldlega látið undan þrýstingi. „Ég hef ekki fengið neina hvatningu um að viðhalda þessu, svo heitið getur. Hins vegar hafa gagnrýnisraddirnar verið margar og oft á tíðum háværar,“ segir Guðlaugur. 

Allt annað var að sjá ráðherrann þegar búið var að …
Allt annað var að sjá ráðherrann þegar búið var að snyrta hann til. Ljósmynd/Aðsend

Guðlaugur birti myndir af því þegar hann lét raka skegg sitt á fésbókarsíðu sinni í dag, og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Skrifar einn við færsluna að nú sé hægt að láta sjá sig aftur á almannafæri með ráðherranum. Annar, Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir það hafa verið úrdrátt þegar hann sagði góðlátlega við Guðlaug: „Þetta er ekki fallegt skegg.“

Ekki óeðlilegt að dagskrá breytist

Eins og áður segir er Mike Pence væntanlegur hingað til lands á morgun og hefur dagskrá vegna komu hans verið nokkuð á reiki. Sem dæmi hafði Pence þekkst boð Guðna Th. Jóhannessonar forseta um hádegisverðarboð á Bessastöðum en nú þykir hins vegar ekki víst hvort af því verður. 

Spurður um þessar hræringar segir Guðlaugur: „Þetta snýr að mörgum þáttum. Þegar áætlunin hans úti breytist hefur það áhrif á okkur. Síðan eru öryggismálin auðvitað umfangsmeiri en við höfum séð áður. Svo þetta er ekki jafn einfalt og gæti litið út í fyrstu.“ Segir hann það í sjálfu sér ekki mikil tíðindi að nokkrar hræringar eigi sér stað þegar kemur að viðlíka heimsóknum. Dagskrár geti breyst alveg fram á síðustu stundu.

Pence kemur á morgun beint úr opinberri heimsókn til Írlands og segir Guðlaugur: „Flækjustigið hér snýr annars vegar að því að hann er að koma hingað úr öðrum ferðum og hins vegar að því að öryggismálin eru mun umfangsmeiri þegar um varaforseta Bandaríkjanna er að ræða, eins og menn vita.“

Mike Pence ásamt Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, fyrr í dag.
Mike Pence ásamt Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, fyrr í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert