Munu áfram geta numið í Bretlandi

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra. mbl.is/​Hari

Eftir útgöngu Bretlands úr ESB munu íslenskir nemendur áfram geta sótt um að fara í grunn- eða framhaldsnám til Bretlands og tryggt er að íslenskir nemendur sem þegar stunda nám á vegum Erasmus+-áætlunarinnar í Bretlandi muni geta lokið dvöl sinni eins og fyrirhugað var þrátt fyrir útgöngu Bretlands 31. október nk. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is vegna erindis Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningamálaráðherra, á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þar gerði hún grein fyrir þeim ráðstöfunum sem hafa verið gerðar vegna íslenskra námsmanna í Bretlandi, í tengslum við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. 

Áætlað er að um 200 íslenskir háskólanemar stundi nám í Bretlandi, ýmist á eigin vegum eða sem skiptinemar sem hafa fengið styrk til skiptináms eða starfsþjálfunar frá mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun ESB; Erasmus+. Munu þeir áfram geta stundað nám í Bretlandi, eins og að ofan greinir. 

Áætlað er að Bretar gangi úr Evrópusambandinu 31.október.
Áætlað er að Bretar gangi úr Evrópusambandinu 31.október. AFP
mbl.is