„Getum ekki bara þagað eins og allt sé eðlilegt“

Karen Pease kaus að skrifa á líkama sinn í stað …
Karen Pease kaus að skrifa á líkama sinn í stað þess að bera skilti til að mótmæla komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bikiníklædd kona með páfagauk í hendi vakti athygli margra sem fylgdust með komu Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Höfða nú í hádeginu. Þar var á ferð hin bandaríska Karen Pease sem vildi lýsa yfir óánægju sinni með núverandi stjórnvöld í sínu gamla heimalandi, en Karen hefur verið búsett hér á landi sl. sjö ár.

„Ég er að mótmæla öllu því sem ríkisstjórn þeirra Pence og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta er búin að gera,“ sagði hún og kvaðst þar m.a. vera að vísa til múrsins sem bandarísk stjórnvöld vilja reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós og innflytjendastefnu stjórnarinnar.

„Mér finnst hann ekki bara geta komið hingað og við bara þagað eins og allt sé eðlilegt,“ segir Karen. „Það er ekki í lagi það sem þarna er að gerast.“

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna við komuna í Höfða.
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna við komuna í Höfða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að mótmæla bikiníklædd segir hún vissulega hafa verið hægt að mótmæla með skilti í hendi. „Svo hugsaði ég með mér að þetta væri Pence; maður sem ekki getur unnið með konu án þess að eiginkona hans, Karen Pence, sé á staðnum. Ég hugsaði að ég hefði kannski meiri áhrif með því að skrifa á mig en að vera með skilti.“

Á líkama sinn skrifaði Karen m.a.: „Hættu að læsa börn inni í búrum helvítis ófreskjan þín.“

Karen segir uppátækið hafa vakið töluverða athygli hjá öðrum vegfarendum, en er ekki viss hvort Pence sá það.

Blaðamanni leikur líka forvitni á að vita hvers vegna hún hafi mætt með páfagauk í hendi.  „Við erum bæði bandarísk og þess vegna fannst mér við eiga að koma hingað bæði og gera eitthvað saman,“ svarar Karen.

Lögregla er með mikinn viðbúnað vegna komu Mike Pence varaforseta …
Lögregla er með mikinn viðbúnað vegna komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is