Kveiktu í bandaríska fánanum

Lögregla er með mikinn viðbúnað vegna heimsóknar Mike Pence.
Lögregla er með mikinn viðbúnað vegna heimsóknar Mike Pence. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir menn voru handteknir við sjávargarðinn skammt frá Höfða þar sem þeir höfðu lagt eld að bandaríska fánanum. Þetta staðfestir Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is.

Mennirnir voru að mótmæla heimsókn Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem hitti meðal annarra Guðna Th. Jóhannesson forseta og Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Höfða nú síðdegis.

Að sögn Guðmundar Péturs stangast það á við lög að vera með opinn eld innan borgarmarkanna, auk þess sem það telst smán við erlent ríki að brenna þjóðfána þess.

Mönnunum tveimur var sleppt að loknum yfirheyrslum og fer ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með framhald málsins.

Ekki hefur komið til fleiri handtaka í tengslum við heimsókn Pence.

mbl.is