Mögulega næst umfangsmestu öryggisráðstafanir í sögu Íslands

Mikill viðbúnaður við Höfða. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er staddur …
Mikill viðbúnaður við Höfða. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er staddur á landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þær öryggisráðstafanir sem ráðist hefur verið í vegna komu Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands eru í „efstu stærðargráðu“ og mögulega þær umfangsmestu síðan á leiðtogafundinum í Höfða milli Ronalds Reagans, þáverandi Bandaríkjaforseta, og Mikhaíls Gorbatsjevs, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, árið 1986.

Þetta segir Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra í samtali við mbl.is.

Allar heimsóknir mismunandi

Spurður hvort öryggisráðstafanirnar séu þær næstmestu í Íslandssögunni segir Jón að það sé erfitt að segja til um það enda heimsóknir erlendra þjóðleiðtoga og annarra mjög mismunandi verkefni eftir eðli heimsóknana.

„Það er eiginlega voðalega erfitt að segja það. Það var rosalega mikill viðbúnaður þegar páfinn var hérna og forseti Kína. Svo hafa verið haldnir fundir á vegum NATO. En þessi heimsókn er í efstu stærðargráðu með öðrum svona stórum heimsóknum og öryggisgæsluverkefnum,“ útskýrir Jón.

Leiðtogafundurinn var „stærstur“ í Íslandssögunni

Hann er þó nánast tilbúinn að slá því föstu að öryggisráðstafanir vegna leiðtogafundarins í Höfða 1986 hafi verið þær umfangsmestu í sögunni.

„Það má eiginlega segja það. Þessi heimsókn [Mikes Pence] er stutt, aðrar eru einhverjir dagar en ég hugsa nú að maður geti sagt að leiðtogafundurinn hafi verið stærstur,“ bætir hann við.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sést hér á flugi yfir Borgartúni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sést hér á flugi yfir Borgartúni. mbl.is/Árni Sæberg

Hergögn sem flutt hafa verið til landsins vegna heimsóknar varaforsetans eru þó líklega í áður óþekktu magni en minnst fimm bandarískar herflutningavélar lentu hér á landi á sunnudag. Með þeim í för voru þrjár vélar af gerðinni MV-22 Osprey.

En það er enn á huldu hvaða hergögn hafa verið flutt hingað til lands. Jón gat varpað smá ljósi á það án þess að fara út í smáatriði.

„Svona verkefnum fylgja náttúrlega alltaf bílar og svo er líka um vopn að ræða og tæknibúnað. Hvað þetta hernaðarlega varðar þá verður utanríkisráðuneytið að svara því,“ segir Jón.

Kostnaðurinn vegna komu Mikes Pence er greiddur alfarið af íslenskum stjórnvöldum. Spurður um heildarkostnað segir Jón: „Við vitum bara um kostnað lögreglu og tökum það saman. Síðan er spurningin hvort hver og ein stofnun verði að bera sitt eða hvort kostnaðinum verði mætt.“

Lífverðir varaforsetans bera vopn

Hann segir að hátt í 200 sérsveitar- og lögreglumenn muni taka þátt í aðgerðum vegna heimsóknar varaforsetans. Þá er fjöldinn allur af bandarískum öryggissveitarmönnum ásamt lífvörðum sem fylgja Pence hvert fótmál. Þeir hafa leyfi til að bera vopn.

„Þegar erlendir þjóðleiðtogar koma þá fylgja þeim öryggisverðir og þeir fá heimildir til að bera vopn í samvinnu við íslensku lögregluna og undir stjórn hennar,“ útskýrir Jón.

En eru það þá bara lífverðir sem mega bera vopn?

„Lífverðir eru þeir sem eru næstir þeim [þjóðleiðtogum]. Svo eru einhverjir sem koma á undan á staðinn og þeir teljast lífverðir líka,“ bætir hann við að lokum.

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Leiðtogafundur í Höfða - Gorbatsjov og Reagan.
Leiðtogafundur í Höfða - Gorbatsjov og Reagan. mbl.is/RAX
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við komuna á Keflavíkurflugvelli. Lífverðir fylgja …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við komuna á Keflavíkurflugvelli. Lífverðir fylgja honum eins og skugginn. mbl.is/​Hari
mbl.is