Selja brauð úr gömlum símaklefa

Eiríkur segir símaklefann henta mjög vel fyrir sjálfsafgreiðslu á brauði.
Eiríkur segir símaklefann henta mjög vel fyrir sjálfsafgreiðslu á brauði. Ljósmynd(Nesbrauð

„Bæjarbúar eru mjög ánægðir. Þeir sem ekki komast í bakaríið á afgreiðslutíma fá þó nýtt brauð. Það er bara frábært að geta þjónustað þá eftir lokun,“ segir Eiríkur Helgason, eigandi bakarísins Nesbrauðs í Stykkishólmi.

Brauðklefi Nesbrauðs var formlega tekinn í notkun 1. september, en þar eru afgangar settir eftir lokun og viðskiptavinir geta þar afgreitt sig sjálfir.

„Við erum búin að prófa þetta í tvö ár, að setja brauð út í kössum og láta fólk afgreiða sig sjálft. Það er bara undantekning ef það skilar sér ekki allt sem við setjum út, ég man eftir einu dæmi á tveimur árum þar sem fólk hefur gleymt að borga.“

Hugmyndin er að sporna gegn matarsóun. „Afgangarnir okkar hafa nú farið ýmist í dvalarheimilið í Grundarfirði eða Stykkishólmi en þeir taka ekki endalaust við. Þá hefur þetta verið að fara í skepnur líka, við erum að reyna að henda sem minnstu.“

Allt á 500 krónur

Það var eiginkona Eiríks, Unnur María Rafnsdóttir, sem átti hugmyndina. „Hún fékk upp í hendurnar þennan símaklefa hjá vini sínum sem hafði hirt hann þegar átti að henda honum á sínum tíma. Hann hentar mjög vel í þetta.“

Allt brauð og bakkelsi í símaklefanum kostar 500 krónur og getur fólk bæði borgað með peningum og millifært. „Þetta er allt á sama verði, 500 krónur. Brauðin eru frá 620 og upp í 800, dýrustu súrdeigsbrauðin, en við settum bara 500 krónur á þetta allt og svo eru kannski fjögur, fimm vínarbrauð í poka og eitthvað svona svo fólk er að fá töluverðan afslátt.“

mbl.is