„Þýðir ekki að við getum ekki gert betur“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði lengi hafa verið kallað eftir heilbrigðisstefnu …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði lengi hafa verið kallað eftir heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef heilbrigðisstefnu vantar þá er það eins og hús byggt á sandi,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, á kynningu á heilbrigðisstefnu stjórnvalda á Hótel Natura nú síðdegis. Setning fundarins, sem heilbrigðisráðherra boðaði til og haldinn var í samvinnu við Landspítalann og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, tafðist lítillega vegna þeirra áhrifa sem koma Mikes Pence varaforseta Bandaríkjanna hafði á umferðarflæði um höfuðborgina í dag.  

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti stuttlega meginstef heilbrigðisstefnunnar við setningu kynningarinnar. „Það er lengi búið að kalla eftir heilbrigðisstefnu á Íslandi,“ sagði Svandís.

 „Núna er komið að því að stefnan verði innleidd og komist til framkvæmdar.“ Nefndi hún sem dæmi að gæðaáætlun sú sem Landlæknisembættið hefði umsjón með væri nú þegar komin í innleiðingarfasa. 

Kvaðst Svandís hafa lagt mikið upp úr að heilbrigðisstefnan yrði plagg þingsins alls, ekki bara ríkisstjórnarinnar. „Hún þarf að vera plagg þjóðarinnar,“ bætti ráðherra við og vakti athygli á að 45 þingmenn hefðu greitt atkvæði með stefnunni en enginn á móti. „Þetta er sú stefna sem þjóðin getur gert að sinni,“ sagði hún og kvað heilbrigðisstefnuna vera leiðarljós til að halda áfram inn í framtíðina.

Öryggisventill á Norður-Atlantshafi

Páll sýndi með erindi sínu glæru með aldurstölum dánartíðni úr talnabrunni Landlæknisembættisins. „Þetta minnir á þann árangur sem hefur náðst og það er ljóst að hann hefur verið mjög góður, en það þýðir ekki að við getum ekki gert betur,“ sagði hann.

„Það þarf að vera skýrt hver verkaskipting er þannig að tryggt sé að ekki sé verið að marggera sömu hluti á meðan annað fellur milli stafns og bryggju,“ sagði Páll og kvað til þess þurfa að meta þarfirnar.

Hann vakti einnig athygli á margþættu hlutverki Landspítalans. „Við gegnum lykilhlutverki sem sérgreinasjúkrahús og erum öryggisventill á Norður-Atlantshafi,“ sagði hann.

Hingað komi sjúklingar með sjúkraflugi frá Grænlandi og Færeyjum, auk þess sem spítalanum beri einnig að sinna þeim ferðamönnum sem hér slasast eða veikjast, sem og þeim sem veikjast á flugi yfir Norður-Atlantshafinu.

Sem sérgreinasjúkrahús sinni Landspítalinn svo fjölda sjúklinga alls staðar að af landinu og sagði Páll sjúkrahótelið þegar farið að skila góðu starfi, þótt það sé enn ekki komið í fulla notkun.

80% í sérhæfða þjónustu – 20% í héraðssjúkrahúsið

„Við verðum að huga að því að Landspítalinn sinnir mikilvægu hlutverki,“ sagði hann og kvað rúmlega 80% af fé Landspítalans fara í sérhæfða þjónustu á borð við krabbameinsmeðferð. „20% fara svo í héraðssjúkrahúshlutverkið, af því að Landspítalinn er vissulega héraðssjúkrahús um 250.000 landsmanna.“ Á milli 35 og 40% af veltu sjúkrahússins sé hins vegar tilkomið vegna þeirrar þjónustu.

„Þetta er líka mikilvægt hlutverk og til að geta sinnt því í samstarfi við Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu er lykilatriði að þjónusta og þjónustuþörf fari í réttan farveg.“

Máli sínu til stuðnings benti Páll á samstarfsverkefni spítalans  og heilsugæslunnar undanfarin tvö ár, en það snýst um að réttir sjúklingar fari á réttan stað. „Það er hvaða vandamál eiga heima á bráðamóttöku og hver á heilsugæslunni.“ Þetta hafi m.a. falið í sér breytingu á verklagi á bráðamóttöku og nú sé reynt að greina þá sem þangað leita hratt, jafnvel áður en greiðsla fer fram.

„Við sjáum líka nú að einstaklingar í minnsta forgangi koma í minna mæli á bráðamóttökuna nú en áður og það hefur skipt sköpum,“ sagði hann. Vissulega verði oft mikið álag á spítalanum, en þá muni líka um að þessi hópur leiti þangað minna en áður. „Við sjáum að einstaklingar með minna alvarleg vandamál leita nú frekar í heilsugæsluna og erum núna að vinna með svipuðum hætti með erlenda ferðamenn.“

Sagði Páll samstarf Landspítalans og heilsugæslunnar ríma vel við undirliggjandi þema heilbrigðisstefnunnar. „Það er að vefa þéttriðið þjónustunet þar sem unnið er saman, því framtíðin er ekki sjálfstæði stofnana heldur samvinna.“

Dagur B. Eggertsson, Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, Alma D. Möller …
Dagur B. Eggertsson, Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, Alma D. Möller land­lækn­ir og María Heim­is­dótt­ir, for­stjóri Sjúkra­trygg­inga Íslands voru meðal þátttakenda í kynningunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is