Áslaug Arna næsti dómsmálaráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður næsti dómsmálaráðherra. 

Þetta var ákveðið á fundi þingflokks Sjálfstæðismanna í Valhöll sem kláraðist nú fyrir stuttu. Þar lagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins fram tillögu um ráðherraefni og var tillagan samþykkt.

„Einn efnilegasti stjórnmálamaður landsins“

„Ég gerði tillögu hér í þingflokknum að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir yrði næsti dómsmálaráðherra og það var afgreitt og samþykkt. Áslaug er einn efnilegasti stjórnmálamaður Íslands. Hún hefur komið af miklum krafti inn í þingið og stýrt af öryggi og festu stórri nefnd í þinginu. Þess vegna er vel hægt að treysta henni fyrir embætti dómsmálaráðherra en á sama tíma er spennandi að hleypa ungu fólki að í fremstu línu stjórnmálanna,“ sagði Bjarni við fjölmiðla þegar hann kynnti niðurstöðu þingflokksins.

„Ég hef lagt áherslu á það sem formaður Sjálfstæðisflokksins að sýna það í verki að við treystum konum til jafns við körlum til þess að taka að sér ábyrgðarstörf og það skiptir miklu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrir samfélagið,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins við fjölmiðla eftir spurður um mikilvægi kynjasjónarmiða þegar kom að vali á nýjum dómsmálaráðherra. 

Hélt tillögunni leyndri fyrir öllum

Tillagan var samþykkt af öllum viðstöddum en Áslaug sjálf var ekki viðstödd en tók þátt í fundinum gegnum síma.

Fyrir fundinn virtist enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins vita hver yrði ráðherra nema Bjarni Benediktsson sem vildi ekkert tjá sig. Það er ljóst að hann hélt spilunum ansi þétt að sér fyrir fundinn. 

Páll Magnússon sagðist ekki hafa hugmynd um hver yrði ráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, núverandi dómsmálaráðherra, var spurð hver tæki við af henni og sagði hún „það verður einhver af þessum“ og vísaði til þingmanna sem þá voru komnir inn í fundarherbergi í Valhöll.

Bjarni sagði við fréttamenn að Áslaug væri einn efnilegasti stjórnmálamaður landsins. Áslaug Arna var ekki viðstödd fundinn en hún er stödd erlendis.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is