Fjöldi orlofsdaga má ekki ráðast af lífaldri

Á almennum markaði er fjöldi orlofsdaga tengdur starfsaldri en lengd …
Á almennum markaði er fjöldi orlofsdaga tengdur starfsaldri en lengd orlofs opinberra starfsmanna hefur miðast við lífaldur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt af stórum viðfangsefnum sem tekist er á um við samningaborðið þessa dagana í kjaraviðræðum opinberra starfsmanna við ríkið og sveitarfélögin er ákveðnar grundvallarbreytingar sem gera þarf á ávinnslu orlofsréttinda. Lög sem tóku gildi 1. júlí síðastliðinn banna tengingu orlofsdaga við lífaldur. Ekki má mismuna fólki á vinnumarkaði eftir aldri skv. lögunum en fjöldi orlofsdaga opinberra starfsmanna hefur hingað til verið tengdur aldri.

Þetta hefur engar breytingar í för með sér á almenna vinnumarkaðnum, þar sem launamenn ávinna sér lengra orlof með auknum starfsaldri, en opinberir starfsmenn hafa hins vegar áunnið sér aukinn orlofsrétt með hækkandi lífaldri á undanförnum árum. Því þarf nú að breyta ákvæðum í kjarasamningunum um ávinnslu orlofsdaga með hærri aldri og miða annaðhvort við starfsaldur líkt og gert er á almenna vinnumarkaðinum eða finna aðrar leiðir. Að því er unnið en það hefur reynst flókið ef koma á í veg fyrir að einhverjir verði beinlínis fyrir skerðingum vegna þessa að mati fulltrúa stéttarfélaga.

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, stærsta stéttarfélags opinberra starfsmanna, segir að um sé að ræða viðfangsefni sem ekki sé einfalt að breyta og niðurstaða liggi ekki fyrir. Á árum áður bjuggu opinberir starfsmenn við svipað fyrirkomulag og gilt hefur á almenna markaðinum, þar sem orlofsdögum þeirra fjölgar í skrefum með hækkandi starfsaldri. Þessu var breytt í kringum síðustu aldamót á þann veg að mismunandi orlofsréttur opinberra starfsmanna hefur síðan þá tekið mið af lífaldri. „Það einfaldaði málin og við vorum afar sátt við þetta fyrirkomulag. Flestir komu vel úr út þessu meðal opinberra starfsmanna,“ segir hann og bendir á að opinberir starfsmenn séu að jafnaði eldri en gengur og gerist á almenna vinnumarkaðinum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert