Horfin hjól daglegt brauð í Vesturbæ

Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi, segir að reiðhjólaþjófnaður hafi aukist.
Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi, segir að reiðhjólaþjófnaður hafi aukist. mbl.is/Eggert

354 reiðhjólaþjófnaðir voru skráðir hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu átta mánuðum ársins og virðist sem slíkum málum hafi fjölgað snarlega síðustu ár. Á sama tímabili á síðasta ári voru skráðir þjófnaðir 301 og 269 árið 2017.

Á facebookhópnum Vesturbærinn þar sem íbúar Vesturbæjar ræða sín á milli um sameiginleg málefni tengd hverfinu hefur mikil umræða um reiðhjólaþjófnaði í hverfinu sprottið upp. Upp á síðkastið er nánast daglega fjallað um slíkt.

„Við verðum vör við reiðhjólaþjófnað almennt, úti um allt. Hann virðist hafa aukist undanfarin ár,“ segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á lögreglustöð 1 á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar var mest um reiðhjólaþjófnað á svæði 101, á bilinu 30-50 tilkynningar það sem af er ári, en svæði 105 kemur næst á eftir. „Það er alltaf meira af öllu eftir því sem nær dregur miðborginni. Það eru fleiri að stela þar,“ segir Guðmundur Pétur.

Í umræðu um reiðhjólaþjófnað almennt hefur því verið velt upp hvort um skipulagðan þjófnað sé að ræða. Jafnvel hvort stolnum hjólum sé komið fyrir í gámum og þau flutt úr landi. Guðmundur Pétur segir að þetta séu vangaveltur enn sem komið er.

Lögreglan hefur fátt í höndunum sem bendir til skipulagðs reiðhjólaþjófnaðar. …
Lögreglan hefur fátt í höndunum sem bendir til skipulagðs reiðhjólaþjófnaðar. Það eru þó vangaveltur sem eiga rétt á sér að sögn lögreglufulltrúa. mbl.is/Eggert

„Þær eiga rétt á sér, en við höfum ekkert í höndunum sem sannar þetta. Einfaldlega vantar okkur bara upplýsingarnar, ef einhver veit, um það hver sé þá að safna í gáma o.s.frv.“ segir hann, en lögreglu hafa ekki borist slíkar ábendingar. „Þetta eru meira bara hugleiðingar, bæði hjá lögreglumönnum og borgurum sem við ræðum við,“ segir hann.

Pítsusendill leiti réttar síns eftir myndbirtingu

Sem fyrr sagði hafa vesturbæingar áhyggjur af reiðhjólaþjófnaði í Vesturbæ og fjölmargir biðja þar nágranna sína að hafa augun opin fyrir horfnum hjólum. Einnig er að finna ábendingar um grunsamlega hegðun fólks og nú síðast var birt mynd af pítsusendli Domino's sem var sagður hafa hagað sér „grunsamlega“. Hann var sagður hafa sniglast kringum hús áður en hjól hurfu þaðan skömmu síðar. Nokkur umræða skapaðist um þessa færslu og var myndin með færslunni að lokum fjarlægð og pítsusendillinn beðinn afsökunar sökum þess að hann virtist hafa verið hafður fyrir rangri sök.

Þá hafði Berglind  Jónsdóttir, markaðsfulltrúi Domino's, blandað sér í umræðuna. Hún sagði að maðurinn sem um ræddi væri traustur starfsmaður fyrirtækisins og að hann leitaði nú réttar síns. Aðspurður kvaðst Guðmundur Pétur ekki hafa heyrt af málinu.

Flestum hjólum hefur verið stolið á svæði 101 það sem …
Flestum hjólum hefur verið stolið á svæði 101 það sem af er þessu ári, en hverfi 105 kemur þar á eftir. mbl.is/Ómar

Eftir hádegi í dag skrifaði Hallur Hallsson rannsóknarlögreglumaður færslu inn á síðuna þar sem hann sagði gott að stíga varlega til jarðar, „þó ekki nema til að fullvissa sig að einhver sé ekki hafður að rangri sök“.

„Ef einhver tekur þetta á símann sinn og birtir, þá er það algjörlega á hans ábyrgð,“ segir Guðmundur Pétur. „Sá sem verður fyrir barðinu á þessu, maðurinn á myndinni, hefur síðan fullan rétt á að leita réttar síns ef honum finnst að sér vegið,“ segir hann.

Guðmundur Pétur segir að afhenda skuli lögreglu efni úr öryggismyndavélum í eigu fólks. Þá sé óheimilt að mynda úti við þannig að myndavélin fylgist með almannarými.

mbl.is