Pétur er framúrskarandi ungur Íslendingur 2019

Fanney Þórisdóttir, landsforseti JCI, Pétur Halldórsson og Guðni Th.Jóhannesson.
Fanney Þórisdóttir, landsforseti JCI, Pétur Halldórsson og Guðni Th.Jóhannesson. Ljósmynd/Aðsend

Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna og ötull talsmaður náttúruverndar og valdeflingar ungs fólks, var í gær valinn Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2019 fyrir framlag sitt á sviði siðferðis og umhverfismála.

Pétur hefur unnið hörðum höndum að uppbyggingu Ungra umhverfissina en félagið hefur m.a. staðið fyrir loftlagsverkfallinu á Íslandi, í samvinnu við önnur félög. Hann hefur komið að frumkvöðlastarfi innan félagsins og má þar helst nefna frumkvæði að námskeiðum í hagsmunagæslu fyrir sjálfbæra þróun og stofnun nýrra alþjóðlegra félagssamtaka: hins alþjóðlega tengslanets ungmenna um norðurslóðir (Artic Youth Network – AYN).

AYN snýst um að valdefla og tengja saman ungt fólk um allan heim með áherslu á hvernig loftslagsmál, náttúruvernd og menningarlegt jafnrétti tengjast innbyrðis.

Pétur er einnig í stjórn Landverndar og er mikill talsmaður þess að samrýma loftslagsaðgerðir og endurheimt vistkerfa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá JCI á Íslandi sem veita verðlaunin árlega. Á síðasta ári hlaut Ingileif Friðriksdóttir verðlaunin fyrir framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

„Pétur er vel að þessum verðlaunum kominn. Hann hefur verið í sjálfboðavinnu í starfi sínu hjá Ungum umhverfissinnum og nýtt frítíma sinn í baráttu sinni um náttúruvernd og loftslagsmál. Einnig stofnaði hann Arctic Youth Network, alþjóðlegt tengslanet ungs fólks sem er umhugað um umhverfismál. Ótrúleg afrek hjá þessum unga manni og við hlökkum til að fylgjast með næstu skrefum hjá honum. Framtíðin er björt með alla þessa ungu frambærilegu einstaklinga sem láta sig málefnin varða,“ er haft eftir Jóni Rúnari Jónssyni verkefnastjóra í tilkynningunni.

Verðlaunin voru afhent af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands ásamt Söru Mansour aktívista og Rakel Garðarsdóttur hjá Vakandi fyrir fullu húsi í Iðnó.

Tilnefnd voru:

Alda Karen Hjaltalín

Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.

Anna Sigríður Islind

Störf á sviði tækni og vísinda.

Einar Stefánsson

Störf/afrek á sviði menningar.

Erna Kristín Stefánsdóttir

Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

Pétur Halldórsson

Störf á sviði siðferðis- og/eða umhverfismála.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.

Róbert Ísak Jónsson

Einstaklingssigrar og/eða afrek.

Sigurður Loftur Thorlacius

Störf á sviði siðferðis- og/eða umhverfismála.

Sólborg Guðbrandsdóttir

Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

Sturlaugur Haraldsson

Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.

mbl.is