Reiðubúin að takast á við verkefnið

„Það bíða mín margar áskoranir, en ég fer glöð og …
„Það bíða mín margar áskoranir, en ég fer glöð og spennt í ráðuneytið.“ mbl.is/​Hari

„Fyrstu viðbrögð eru þau að ég er afar þakklát fyrir að vera treyst fyrir svona stóru og mikilvægu ráðuneyti og ég mun gera mitt allra besta í þeim verkefnum sem bíða mín,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, næsti dómsmálaráðherra Íslands, og bætir við að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sýni með ákvörðun sinni og hafi sýnt það áður að hann treysti ungu fólki til stórra verkefna.

„Það bíða mín margar áskoranir en ég fer glöð og spennt í ráðuneytið.“

Áslaug segist hafa frétt af ákvörðuninni um einni mínútu áður en þingflokksfundur flokksins, þar sem tillaga Bjarna var samþykkt, hófst.

Áslaug er nú 28 ára gömul og verður þar með yngsta manneskjan til þess að taka við ráðherraembætti frá því að Eysteinn Jónsson varð fjármálaráðherra árið 1934 á 28. aldursári.

Aðspurð um gagnrýni vegna ungs aldurs bendir Áslaug á að hún hafi verið í forystusveit flokksins undanfarin fjögur ár, setið á þingi frá árinu 2016 og á þeim tíma gegnt formennsku í bæði allsherjar- og menntamálanefnd og síðar utanríkismálanefnd. „Ég tel mig reiðubúna til að takast á við embættið.“

Nýr ritari kjörinn á flokksráðsfundi

Áslaug er þessa stundina stödd í Finnlandi, þar sem hún situr ráðstefnu um öryggis- og varnarmál, og segir hún að fyrsta verkefni sitt sé að koma sér heim, en boðað hefur verið til ríkisráðsfundar á Bessastöðum kl. 16:00 á morgun.

Áslaug var kjörin ritari Sjálfstæðisflokksins árið 2015, en samkvæmt skipulagsreglum flokksins er ritara hans meinað að gegna ráðherraembætti á sama tíma. Nýr ritari verður því kjörinn á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður 14. september næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert