Um 4,7% þjóðar býðst að sjá Baggalút

Hljómsveitin var í stuði á tónleikum sínum í Hofi í …
Hljómsveitin var í stuði á tónleikum sínum í Hofi í fyrra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Baggalútur býður sem fyrr upp á jólatónleika í ár og að þessu sinni verða haldnir 18 tónleikar í Háskólabíói. Miðasala hófst á þriðjudaginn og samkvæmt upplýsingum frá Tix.is, sem sér um miðasöluna, eru 948 miðar í boði á hverja tónleika.

Í fyrra seldist upp á alla tónleika Baggalúts og ef árið er í ár verður með svipuðu sniði munu alls 17.064 manns sjá Baggalút spila. Það gerir um 4,7% af þjóðinni.

Miðasala fer mjög vel af stað

„Það er ekki alveg uppselt en miðasalan fór mjög vel af stað,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix.is. Nú þegar er uppselt á nokkra tónleika. „Þetta er mjög svipað og í fyrra. Þeir ákváðu í ár að setja alla tónleikana í sölu strax. Í fyrra byrjuðu þeir á 10 tónleikum og bættu svo við. En það var svo mikil eftirspurn að þeir hentu þessu öllu inn. Það voru líka 18 tónleikar í fyrra þannig að það verður svipað,“ segir Hrefna.

Hún telur líklegt að seljast muni upp á tónleikana aftur í ár. „Fólk fær ekki nóg af þessu,“ segir hún og hlær. Þetta er fjórtánda árið sem hljómsveitin Baggalútur kemur saman og heldur jólatónleika.

Bragi Valdimar Skúlason, einn liðsmanna Baggalúts og hirðskáld hljómsveitarinnar, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að hljómsveitin hefði komið sér upp kojum í Háskólabíói á meðan á „vertíðinni“ stóð í fyrra. „Þetta var eins og að vera á góðum togara,“ sagði Bragi.

Fyrstu tónleikar sveitarinnar í ár verða kl. 17 föstudaginn 6. desember. Vertíðinni lýkur síðan með lokatónleikum kl. 21 hinn 21. desember.

mbl.is