Unnið í fimm skólum vegna loftgæða

Framkvæmdum er lokið við 8 skólastofur sem teknar voru í …
Framkvæmdum er lokið við 8 skólastofur sem teknar voru í notkun á 2. september. mbl.is/Hari

Á þessu ári og einnig á því síðasta var farið í fjölmargar framkvæmdir vegna loftgæða og mygluvanda í leik- og grunnskólum, sem og á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Nú standa yfir framkvæmdir vegna raka- og mygluvanda í fimm grunnskólum og einu frístundaheimili. 

Þetta eru eingöngu verkefni vegna loftgæða í byggingunum. Í skólunum er fjöldi annarra viðhaldsverkefna á hverjum tíma sem ekki eru talin upp hér. Þar á meðal endurbygging á einu húsi í Seljaskóla sem brann í mars á þessu ári.

Fjárhagsrammi vegna viðhalds leik- og grunnskóla í Reykjavík í ár er 1,7 milljarðar króna. Að auki er sérstök fjárveiting af fjárfestingalið vegna stærri verkefnanna eins og endurgerðar á þökum.

Hér fyrir neðan er listi yfir þau verkefni sem unnið hefur verið að á þessu ári. Þessar upplýsingar byggjast á skriflegum svörum frá Reykjavíkurborg. Verkefnunum er skipt niður í verkefni á framkvæmdastigi, verk í undirbúningi og verkefni sem lokið er.

Verkefni á framkvæmdastigi

Fossvogsskóli

Viðgerðum og viðhaldi er lokið í tveimur hlutum skólans (Austur- og Meginlandi) og skólastarf hafið í þeim hlutum. Viðgerðum í Vesturlandi verður lokið í desember 2019. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði skólans auk þeirra viðgerða. Settur var upp glerveggur í bókasafni og unnið er að endurbótum á lóð. Grafið er með suðurhlið skólans sem eykur birtu í mötuneyti. Einnig er unnið að  stækkun á leiksvæði frístundar á skólalóð. Áætluð verklok lóðaframkvæmda er í desember 2019.

Loftgæða og sýnatökur hafa verið gerðar. Endanlegur kostnaður við framkvæmdir liggur ekki fyrir.

Breiðholtsskóli
Framkvæmdum er lokið við átta skólastofur sem teknar voru í notkun á 2. september. Framkvæmdum við hinn hluta álmunnar lýkur í nóvember 2019. Framkvæmdirnar sem farið var í byggja á loftgæðamælingum og sýnatökum sem gerðar voru í vor. 

Áætlaður kostnaður við Breiðholtsskóla er 100 milljónir króna.

Ártúnsskóli

Vinna við að skipta út þaki á aðalbyggingu skólans hefst innan tíðar. Útboð var auglýst 31. ágúst. Áætluð verklok eru í desember 2019. Röskun á skólastarfinu verður minniháttar og ekki þarf að flytja starfsemi úr skólanum.

Loftgæðamælingar og sýnatökur voru gerða og fannst ekkert í þeim sýnum annað en staðbundnar rakaskemmdir sem eru þar sem leki hefur verið í þaki. Þakið verður endurnýjað nú á haustmánuðum. Kostnaður við framkvæmdir liggur ekki fyrir.

Laugarnesskóli

Viðgerðir hófust á haustmánuðum 2018 og lýkur þeim  núna í september 2019. Framkvæmdin byggði á loftgæðamælingum og sýnatökum.
Kostnaður fellur undir almennt viðhald.

Langholtsskóli

Markvissar og staðbundnar viðgerðir hafa verið unnar í skólanum og verið er að greina skólann með loftgæðamælingum og sýnatökum. Unnið var í gluggum í sumar vegna leka.

Tónabær, félagsmiðstöð

Framkvæmdir í framhaldi af mælingum loftgæða og sýnatökum hófust í vor. Þær eru á lokastigi.

Verkefni í undirbúningi

Miðberg, frístundaheimili 

Starfsemi er flutt í annað húsnæði vegna rakaskemmda. Áætlað er að endurgera alla hæðina. Loftgæði voru mæld og sýni tekin.

Furuborg, leikskóli

Verið er að byrja á framkvæmdum í leikskólanum og er áætlað að þeim ljúki í febrúar 2020. Loftgæði voru mæld og sýni tekin.

Sunnuborg, leikskóli

Farið var í loftgæða- og sýnatöku í lok árs 2018. Farið hefur verið yfir loftgæði og greiningu á þeim stöðum þar sem úrbóta er þörf. Til stendur að skipta um glugga á austurhlið. Gögn fyrir útboð gluggaviðgerðar eru tilbúin. Verið er að undirbúa framkvæmdir. Áætluð verklok í mars 2020.

Verkefni sem er lokið

Hlíðaskóli

Viðgerðir á gluggum austurhliðar á byggingu númer 4 er lokið. Byrjað var á verkinu 2018 og lauk því verki nú í ár. Í framhaldi var farið í viðgerðir innanhúss í þeim stofum sem urðu fyrir rakaskemmdum og er þeirri vinnu einnig lokið. Loftgæðamælingar voru gerðar og sýni tekin. 

Klébergsskóli

Þakjárn ásamt þakkanti og rennum var endurnýjað haustið 2018. Vinnu lauk í byrjun árs 2019.  

Austurborg, leikskóli

Járn á þaki var endurnýjað og einangrun, rakasperru og loftaklæðningu var skipt út. Framkvæmdum lokið 2019. 

Ölduselsskóli

Rakaskemmdir greindust í bókageymslu í kjallara í vor og er þeim viðgerðum lokið. Byggt var á loftgæða- og sýnatökum. 

Ársel, frístundaheimili

Eftir kvörtun starfsmanna vegna loftgæða voru þau mæld og tekin sýni. Í framhaldi var skipt um þakjárn á byggingunni ásamt því að endurnýja og fara yfir einangrun og rakasperru í þakinu. Búið að skipta um jarðveg við húsið og drenlagnir, sem og fara yfir frárennslislagnir utanhúss.

Hagaskóli

Kvartað var yfir loftgæðum í kennslustofum. Sett hafa verið upp ný loftræsikerfi og blásarar í skólann, auk þess sem opnanlegum gluggafögum var fjölgað. Loftgæðamælingar voru gerðar og sýni tekin. 

Hagaskóli íþróttahús

Skipt var um þak á íþróttahúsinu 2018 og lauk þeirri vinnu nú í ár.

Fellaskóli

Rakaskemmdir í kjallara. Skipt var um jarðveg og drenlagnir utanhúss. Dúkar endurnýjaðir og málað, ásamt öðru viðhaldi innanhúss. 

Foldaskóli

Skipt um þak á elsta hluta skólans og endurnýjaður þakdúkur á tengibyggingu. Vinnu er lokið. Loftgæði voru mæld og sýni tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert