Björguðu manni úr brennandi húsi

Alls tóku aðgerðir slökkviliðs um 40 mínútur áður en vettvangurinn ...
Alls tóku aðgerðir slökkviliðs um 40 mínútur áður en vettvangurinn var afhentur lögreglunni til rannsóknar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út á fjórða tímanum í dag vegna reyks sem barst úr húsi við Hlíðarveg í Reykjanesbæ. Slökkviliðsmaður á frívakt var fyrstur á staðinn og kom í ljós að maður var inni í húsinu.

Reykkafarar fóru inn og sóttu manninn sem var fluttur rakleiðis á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, talsvert slasaður. Þetta staðfestir varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Kviknað hafði í í eldhúsi hússins og var reykur kominn út um allt hús, svo slökkviliðsmaðurinn á frívakt hætti sér ekki inn en lét liðsfélaga sína rakleiðis vita að maður væri inni í húsinu. 

Reykkafarar voru því tilbúnir að fara inn í húsið um leið og á staðinn var komið og björguðu manninum úr húsinu. Alls tóku aðgerðir slökkviliðs um 40 mínútur áður en vettvangurinn var afhentur lögreglunni til rannsóknar.

mbl.is