Eyþór og Jón máta sig við embætti ritara

Embætti ritara Sjálfstæðisflokksins stendur nú autt og fróðlegt verður að …
Embætti ritara Sjálfstæðisflokksins stendur nú autt og fróðlegt verður að fylgjast með hverjir gefa kost á sér. mbl.is/Arnþór

Eyþór Laxdal Arnalss, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og Jón Gunnarsson, þingmaður flokksins, hafa verið nefndir sem mögulegir arftakar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í embætti ritara Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru báðir opnir fyrir hugmyndinni og íhuga nú málið.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Jón vildi í samtali við mbl.is ekki tjá sig mikið um málið en staðfesti að hann hefði verið hvattur til að gefa kost á sér í embætti ritara Sjálfstæðisflokksins.

„Ég get alveg staðfest það að ég hef fengið hvatningu til þess úr ýmsum áttum og er að íhuga málið,“ sagði Jón og bætti því við að hann væri sáttur við þá niðurstöðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að gera Áslaugu Örnu að dómsmálaráðherra.

Eyþór ætlar að hugsa málið yfir helgina

„Þetta hefur verið rætt síðan það kom í ljós að Áslaug yrði ráðherra og þá fór fólk að spá í þetta og tala um þetta við mig. Fólk hefur líka nefnt að það væri sterkt að hafa sveitarstjórnarmann þarna inni,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds í samtali við mbl.is.

Spurður hvort hann hefði áhuga á því að bjóða sig fram í embætti ritara flokksins sagði hann að „maður ætti ekki að útiloka neitt“. 

„Ég er kannski í þeirri stöðu að vera sveitarstjórnarmaður, oddviti í Reykjavík, og sveitarstjórnarstigið er í raun og veru mjög sterkt í flokknum þannig að það væri eðlilegt að það væri forystumaður úr sveitarstjórn sem kæmi inn í þetta til að breikka forystuna. Ég held að það væri hollt fyrir flokkinn.“

Eyþór Laxdal Arnalds er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mætti segja að þú værir alvarlega að íhuga þetta?

„Eigum við ekki að segja að ég hlusti á mitt fólk og hugsi þetta núna yfir helgina,“ sagði hann að lokum.

mbl.is