Gengið skrefi lengra í aðskilnaði ríkis og kirkju

Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

„Mér finnst mjög ánægjulegt að það sé að gerast tvennt í einu núna með þessu samkomulagi, annars vegar það að það tekst samkomulag um fjárhagslegu samskiptin, en hitt er ekki síður merkilegt að kirkjan er að taka til sín aukið sjálfstjórnarvald um eigin málefni í stórauknum mæli, sem eru auðvitað stóru tíðindin í þessu samkomulagi að mínu áliti. Þar með er gengið skrefinu lengra í aðskilnaði ríkis og kirkju,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum í dag.

Þar undirrituðu hann, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra og Drífa Hjartardóttir formaður kirkjuþings nýjan viðbótarsamning um fjárhagsleg málefni ríkisins og þjóðkirkjunnar.

„Þetta er ótrúlega stórt skref í auknu fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar. Starfsmannahald verður allt hjá þeim, þau verða ekki lengur ríkisstarfsmenn og ráða sínum málum miklu meira eftir þetta en þau hafa gert og innri málefni þeirra eru algjörlega á þeirra könnu. Ég trúi því að þetta sé mjög til bóta,“ sagði Þórdís Kolbrún í samtali við blaðamann eftir undirritun samkomulagsins, en undirritun þessa samkomulags var eitt af hennar síðustu verkum í embætti dómsmálaráðherra.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu felur samningurinn í sér stóraukið fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar og þá meginbreytingu að kirkjan tekur sjálf við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum. Greiðslur til þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði munu hér eftir taka breytingum á þeim sömu almennu launa- og verðlagsforsendum sem liggja til grundvallar fjárlögum hvers árs.

„Með þessu nýja samkomulagi er stigið mjög stórt skref í þá átt að þjóðkirkjan verði fyrst og fremst trúfélag sem beri sjálft ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Kirkjan nýtur enn stuðnings íslenska ríkisins líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins en fjarlægist það mjög að vera ríkisstofnun með þessum samningi. Áfram munu lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar gera ráð fyrir ákveðnum tengslum á milli þjóðkirkjunnar og ríkisins,“ segir í tilkynningunni.

Samhliða undirritun samkomulagsins var undirrituð viljayfirlýsing um að stefnt skuli að lagabreytingum sem hafa það að markmiði að einfalda enn frekar alla umgjörð um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju.

Prestarnir spenntir

Drífa Hjartardóttir formaður kirkjuþings.
Drífa Hjartardóttir formaður kirkjuþings. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Drífa Hjartardóttir formaður kirkjuþings segir í samtali við mbl.is að þetta sé stór áfangi, en þéttir samningafundir hafa staðið yfir undanfarið ár.

„Loksins náðist að koma á samningi sem var svo kynntur fyrir kirkjuráði og kirkjuþingsmönnum og hann var samþykktur á kirkjuþingi sem var núna 4. september með öllum greiddum atkvæðum utan eins. Það er mikill samhugur í kirkjunni og ég heyri það á prestunum að þeir eru spenntir fyrir þessu nýja umhverfi og vilja takast á við nútímann,“ segir Drífa.

Hún segir að nú eigi kirkjan eftir að vinna mikið í því að búa til regluverk í kringum samninginn, með góðri hjálp frá dómsmálaráðuneytinu.

Viðbótarsamningurinn í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert