Secret Solstice áfram í Laugardal

Secret Solstice 2019.
Secret Solstice 2019. mbl.is/Arnþór Birkisson

Meirihluti borgarráðs samþykki á fundi sínum í gær að tónleikar Secret Solstice verði haldnir með sambærilegu sniði og var í ár í Laugardal dagana 26.-28. júní 2020 náist samningar um tónleikahaldið.

Jafnframt var samþykkt í borgarráði að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að láta framkvæma könnun meðal íbúa áhrifasvæða tónleikanna í þeim tilgangi að bregðast enn betur við ábendingum um það sem betur má fara í framkvæmd verkefnisins. 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, lagði fram svohljóðandi bókun: 

„Borgarstjóri vill að tónleikar Secret Solstice verði haldnir með sambærilegu sniði og var í ár í Laugardal dagana 26.-28. júní 2020. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að haft verði samráð við íbúa í nágrenninu og foreldrafélög. Framkvæma á könnun og verður það að vera gert af óháðum, viðurkenndum aðila. Flokkur fólksins vill að beðið verði eftir niðurstöðum og verði þær á þann veg að ekki sé vilji til að halda hátíðina í Laugardalnum ber borginni að una því. Hér er verið að segja að íbúar áhrifasvæða tónleikanna ákveði hvort hátíðin skuli haldin aftur á þessum stað. Að leggja fyrir könnun í þeim tilgangi einum að bregðast við ábendingum segir ekkert um hvort fólk sé almennt sátt við að hafa þessa hátíð aftur í Laugardalnum. Íbúar eiga að ráða þessu,“ segir í bókun Kolbrúnar.

Jafnframt var samþykkt tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri-grænna um ókeypis vatn á tónlistarhátíðum. Um sé að ræða bæði skaðaminnkun fyrir íbúa og umhverfi.

„Gott aðgengi að endurgjaldslausu vatni á tónlistarhátíðum í borgarlandinu er mikilvægt vegna skaðaminnkunarsjónarmiða til að tryggja öryggi gesta, standa vörð um þeirra líkamlegu og andlegu heilsu sem og að stuðla að jákvæðri útkomu viðburða fyrir gesti og umhverfi. Lagt er til að borgarráð samþykki að gera kröfu um aðgengi að endurgjaldslausu vatni á tónlistarhátíðum í borgarlandinu og að slíkt ákvæði verði framvegis að finna í öllum samningum og leyfum Reykjavíkurborgar og verði hluti af öryggisviðbúnaði hátíðanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert