Sveitarfélögum verði fækkað

„Sveitarfélögin verða betur í stakk búin til að sinna skyldum …
„Sveitarfélögin verða betur í stakk búin til að sinna skyldum sínum og þjóna íbúunum sem best,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti í dag þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Í henni er gert ráð fyrir því að sveitarfélögum muni fækka verulega fyrir árið 2022 og enn frekar fyrir árið 2028. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var með framsögu á þinginu, þar sem hann kynnti þingsályktunartillöguna.

Sigurður Ingi segir ánægjulegt að í fyrsta skipti hafi nú litið dagsins ljós heildarstefna í málefnum sveitarfélaga. Ráðherra segir stefnuna metnaðarfulla og eina áhugaverðustu tillögu til umbóta í opinberri stjórnsýslu í langan tíma. Stefnumótunin sé vönduð og víðtækt samráð hafi verið við sveitarfélög og íbúa landsins, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Í lok landsþings var samþykkt tillaga stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fyrr segir, að mæla með því að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023.

Í samþykkt þingsins segir: „Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því er mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning.“

„Ég er sannfærður um það, gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis, þá er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaganna þannig að þau geti betur nýtt tækifærin sem ég nefndi áðan, bætt þjónustu við íbúana og unnið markvisst að því að ná árangri gagnvart öllum þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir,“ er haft eftir ráðherra í tilkynningu. 

Í þingsályktunartillögunni er áhersla lögð á sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislega starfsemi þeirra, sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra og loks að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaáætlun til fimm ára og tilgreindar eru ellefu aðgerðir sem vinna ber að til að ná settum markmiðum. 

Ráðherra fjallaði sérstaklega um þá aðgerð í stefnunni sem kveður á um að sett verði að nýju ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksíbúafjölda. Slíkt ákvæði var í lögum frá 1961 til ársins 2011.

Ráðherra segir að gangi þessi tillaga eftir kunni sveitarfélögum að fækka um helming á tímabilinu. Hann segir ávinninginn af þessari aðgerð mikinn. „Sveitarfélögin verða betur í stakk búin til að sinna skyldum sínum og þjóna íbúunum sem best. Þau munu ráða betur við verkefni sín án þess að þurfa að reiða sig á umtalsverðan stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða reka sín mál í gegnum frumskóg byggðasamlaga og samstarfssamninga. Sjálfbærni þeirra eykst – lýðræðislegt umboð styrkist – og stjórnsýsla verður enn betur í stakk búin að mæta auknum kröfum um gæði og skilvirkni,“ sagði Sigurður Ingi.

Nánar á vef Stjórnarráðssins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert