Svigrúmið vegna aga í hagstjórn

Aukinn kraft á að setja í uppbyggingu nýs Landspítala og …
Aukinn kraft á að setja í uppbyggingu nýs Landspítala og fara 8,5 milljarðar í verkefnið árið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegna góðrar stöðu ríkisfjármálanna hafa stjórnvöld tækifæri til þess að veita efnahagslífinu viðspyrnu og vinna gegn niðursveiflunni með öflugri opinberri fjárfestingu samhliða samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu að því er segir í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna fjárlagafrumvarpsins 2020.

Fjárfesta á í samgöngum fyrir 28 milljarða króna.
Fjárfesta á í samgöngum fyrir 28 milljarða króna. mbl.is/Eggert

Fram kemur að framlög til fjárfestinga nemi ríflega 78 milljörðum króna og hafi aukist um rúma 27 milljarða króna að raungildi frá árinu 2017. Meðal stórra verkefna eru til að mynda fjárfestingar í samgöngum upp á 28 milljarða króna, aukinn kraftur í uppbyggingu nýs Landspítala upp á 8,5 milljarða króna, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, framlög vegna smíði nýs hafrannsóknaskips og bygging Húss íslenskunnar.

Skuldir ríkisins niður í 22% af landsframleiðslu

„Svigrúm ríkissjóðs til þess að bregðast við hægari gangi í hagþróuninni má fyrst og fremst þakka agaðri fjármálastjórn undangenginna ára. Jákvæð afkoma, stöðugleikaframlög vegna losunar fjármagnshafta og aðrar óreglulegar tekjur á borð við arðgreiðslur hafa nýst til að lækka skuldir ríkisins verulega, sem á næsta ári er gert ráð fyrir að fari í 22%,“ segir enn fremur í tilkynningunni og áfram:

„Einnig leggst sveigjanlegt gengi krónunnar á sömu sveif, sem og lækkandi vextir Seðlabanka Íslands, en meginvextir hans hafa aldrei verið lægri. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum með nýlegum kjarasamningum, sem renna frekari stoðum undir efnahagslegan stöðugleika.“

Þá segir að aukin tiltrú á tökum stjórnvalda á hagstjórninni hafi að sama skapi endurspeglast í góðu lánshæfismati ríkissjóðs, sem aldrei áður hafi boðist jafngóð kjör á skuldabréfamörkuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert