Andlát: Einar Eylert Gíslason

Einar Eylert Gíslason.
Einar Eylert Gíslason.

Einar Eylert Gíslason, fv. bóndi og ráðunautur á Syðra-Skörðugili í Skagafirði, lést á hjartadeild Landspítalans 5. september, 86 ára að aldri. Einar fæddist 5. apríl 1933 á Akranesi.

Foreldrar hans voru Gísli Eylert Eðvaldsson hárskerameistari og Hulda Einarsdóttir kaupkona. Systkini hans voru Birgir, d. 2013, og Rósa Guðbjörg, d. 2017. Eftirlifandi hálfsystir Einars, sammæðra, er Bryndís Benediktsdóttir, heimilislæknir og prófessor við HÍ.

Einar lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri vorið 1951, var í verklegu búfræðinámi í Danmörku og Svíþjóð næstu tvö árin og útskrifaðist búfræðikandídat frá Hvanneyri 1955.

Einar var ráðunautur í nautgriparækt fyrir Nautgriparæktarsamband Borgarfjarðar 1955-58, bóndi á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi 1958-60, bústjóri og tilraunastjóri fjárræktarbúsins á Hesti í Borgarfirði 1960-74, héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga 1974-84 og bóndi á Syðra-Skörðugili 1974-2000 og stundaði sauðfjárrækt, hrossarækt og loðdýrarækt.

Einar var mikill frumkvöðull í félagsstarfi bænda. Hann sat í stjórn Félags hrossabænda frá stofnun 1975, var formaður þess 1984-93, sat í stjórn Sambands íslenskra loðdýraræktenda í 13 ár og var formaður þess 1984-93. Hann var framkvæmdastjóri Hrossaræktarsambands Skagfirðinga 1974-84 og síðan formaður til 1993, vann að stofnun Loðdýraræktarfélags Skagfirðinga og var formaður þess fyrstu níu árin. Var stofnandi og formaður Félags hrossabænda í Skagafirði 1975-94, aðalhvatamaður að stofnun fóðurstöðvarinnar Melrakka hf. á Sauðárkróki og stjórnarformaður hennar fyrstu fimm árin, vann að stofnun Félags sauðfjárbænda í Skagafirði og sat í stjórn fyrstu sex árin. Einar var jafnframt aðalhvatamaður að stofnun Landssamtaka sauðfjárbænda og sat í stjórn fyrstu árin.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Ásdís Sigrún Sigurjónsdóttir, húsmóðir og kennari. Synir þeirra eru Einar Eðvald, Elvar Eylert, Eyþór og Sigurjón Pálmi. Fyrri kona Einars var Hallfríður Alda Einarsdóttir. Kjördóttir Einars frá fyrra hjónabandi er Eygló Breiðfjörð Einarsdóttir.

Útför Einars fer fram frá Glaumbæjarkirkju föstudaginn 13. september klukkan 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert