„Auðsjáanlegt að þau eru vön að vinna saman“

Rúmlega 150 komu að æfingunni með einum eða öðrum hætti.
Rúmlega 150 komu að æfingunni með einum eða öðrum hætti. Landsbjörg/Guðbrandur Örn

„Það er mikil samstaða hér á Suðurlandi og mikill áhugi á málaflokknum og að bregðast rétt við,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri samræmingar flugvalla og flugverndar hjá Isavia, í samtali við mbl.is eftir flugslysaæfingu á Hornafjarðarflugvelli sem fram fór í dag.

„Þau hafa átt í alls konar áföllum og glímt við mikið af verkefnum. Það er auðsjáanlegt að þau eru vön að vinna saman.“

Rúmlega 150 komu að æfingunni með einum eða öðrum hætti; lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, Rauði krossinn, slysavarnadeildin Framtíð og starfsmenn flugvallarins. Þá gegndu 43 hlutverki slasaðra á æfingunni.

43 gengdu hlutverki slasaðra.
43 gengdu hlutverki slasaðra. Landsbjörg/Guðbrandur Örn

„Við keyrðum æfinguna lengra en við höfum gert áður og vorum að prófa okkur áfram. Auðvitað voru einhverjir hnökrar vegna þessa en í heildina gekk þetta svakalega vel og við lærðum helling af þessu,“ segir Elva, en auk viðbragðsaðila á staðnum var aðgerðastjórnunarstöðin á Selfossi virkjuð, sem og samhæfingarstöðin í Skógarhlíð.

Alltaf eitthvað í gangi á Suðurlandi

Að sögn Elvu eru flugslysaæfingar góðar fyrir hópslysaviðbragð almennt. Þá hafi þau fengið enn betri æfingu í fjölþættu viðbragði vegna bílslyss sem varð í umdæminu meðan á æfingunni stóð, auk þess sem leit stóð yfir að konu sem hafði villst í þokunni.

„Við þurftum að gera hlé á æfingunni í smátíma. Sem betur fer var bílslysið ekki alvarlegt, við ætluðum að stöðva allt en það var hægt að halda áfram með æfinguna og klára hana. Þetta er raunveruleikinn þeirra hér, það er alltaf eitthvað í gangi,“ segir Elva.

Gul viðvörun vegna mikillar úrkomu var í gildi víða á landinu í dag en að sögn Elvu sluppu þau að mestu við hana meðan á æfingunni stóð. „Við erum búin að vera ótrúlega heppin, það er búið að vera milt veður með smáúða,“ segir Elva, en úrhellisdemba hafi skollið á skömmu eftir að æfingu lauk.

Landsbjörg/Guðbrandur Örn
Landsbjörg/Guðbrandur Örn
Landsbjörg/Guðbrandur Örn
Landsbjörg/Guðbrandur Örn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert