Hækkun til háskólanna og nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/​Hari

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2020 er ráðgert að þau nemi rúmum 40 milljörðum kr. á næsta ári.

Meginmarkmið stjórnvalda er að íslenskir háskólar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknastofnanir skapi þekkingu, miðli henni og undirbúi nemendur til virkrar þátttöku í þekkingarsamfélagi nútímans og til verðmætasköpunar sem byggist á hugviti, nýsköpun og rannsóknum. Að því markmiði er meðal annars unnið að með því að auka gæði náms og námsumhverfis í íslenskum háskólum, styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess, og auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknastofnana, að því er menntamálaráðuneytið greinir frá. 

Fram kemur að meðal áhersluverkefna á málefnasviði háskólastigsins séu aðgerðir sem miði að fjölgun kennara. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2020 sé gert ráð fyrir 220 milljónum kr. til verkefnisins en meðal aðgerða sem að því miða séu námsstyrkir til kennaranema á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. 

Þá er í undirbúningi nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn sem feli í sér gagnsærri og jafnari styrki til námsmanna.

„Námsaðstoðin sem sjóðurinn mun veita verður áfram í formi lána á hagstæðum kjörum og til viðbótar verða beinir styrkir vegna framfærslu barna og 30% niðurfelling á hluta af námslánum við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma. Kerfið miðar að því að bæta fjárhagsstöðu háskólanema, ekki síst þeirra sem hafa börn á framfæri, og skapa hvata til að nemar klári nám sitt á tilsettum tíma. Mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram frumvarp þessa efnis á haustþingi,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is