Konan við Múlagljúfur er fundin

Við lokunarpóst á afleggjarnum að Djúpavogi fannst konan, en fyrst …
Við lokunarpóst á afleggjarnum að Djúpavogi fannst konan, en fyrst þar gat hún látið vita af sér.

Konan sem villtist við Múlagljúfur fyrr í dag er fundin. Hún varð viðskila við kærasta sinn sem ferðaðist með henni, en þau eru erlendir ferðamenn.

„Það voru vond leitarskilyrði, mjög þykk þoka og mikill úði. Það var mjög blautt og kalt og ekkert skyggni. Kærastinn hennar var niðri á bílastæði og bað þar fólk að hjálpa sér að finna hana sem þar var fyrir. Þau fundu hana, skiluðu henni í bílinn og keyrðu af stað. Við náðum ekki sambandi við hana og gerðum ráð fyrir að hún væri ennþá týnd,“ segir Elín Birna Vigfúsdóttir, ritari Björgunarfélags Hornafjarðar. Björgunarsveitin Kári var fyrst á svæðið og síðar kom björgunarsveit Hornafjarðar.

„Síðan virkjuðum við líka björgunarsveitina Báru á Djúpavogi og unnum að sjálfsögðu með lögreglunni,“ segir hún.

Sveitirnar settu upp lokunarpósta

Lokunarpóstar voru settir upp á vegum við Kvísker, Jökulsárlón og við Höfn til þess að ná tali af konunni ef hún hefði lagt af stað á bíl. Yfir þrjátíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni.

„Sú leit hafði ekkert upp á sig þannig að við höfðum samband við björgunarsveitina Báru, sem setti upp lokunarpóst á afleggjaranum inn á Djúpavog. Hún skilaði sér þar og þar var rætt við hana,“ segir Elín Birna, en sími konunnar hafði bilað þannig að hún gat ekki látið vita af sér. „Hún náði engu sambandi og keyrði af stað, en á meðan höfðum við ekkert í höndunum, leituðum og létum hana njóta vafans,“ segir Elín Birna.

Í fyrstu frétt mbl.is af málinu kom fram að konan hefði verið í bíl sínum þegar hún lét vita af sér. Hið rétta er að hún var stödd úti við í þoku að sögn Elínar Birnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert