Næstyngsti ráðherra sögunnar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, á fundi ríkisráðs í gær …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, á fundi ríkisráðs í gær ásamt samráðherrum sínum í ríkisstjórn Íslands. mbl.is/​Hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók í gær formlega við embætti dómsmálaráðherra eftir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns og fjármálaráðherra, í fyrradag. Er hún yngsti dómsmálaráðherra Íslandssögunnar og næstyngsti ráðherra sem hefur tekið við embætti frá upphafi en hún er nú 28 ára gömul.

Er hún jafnframt 31. konan til að gegna embætti ráðherra.

Fram að þessu hefur Áslaug verið ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.

Málefni sem vekja athygli

Áslaug hefur vakið athygli fyrir flutning á ýmsum málum á stjórnmálaferli sínum. Frumvörp hennar um opnari háskóla, sem útbýtt voru annars vegar í október í fyrra og í apríl á þessu ári hafa vakið nokkra eftirtekt. Þar er meðal annars lagt til að lögum um háskóla verði breytt og skýrt verði kveðið um að nemendur sem hafi lokið sveinsprófi eigi þess kost að fá inngöngu í háskóla. Áslaug var einnig fyrsti flutningsmaður frumvarps um afnám stimpilgjalda á íbúðarkaup einstaklinga sem tekið var til umræðu á Alþingi í mars á árinu og bíður nú nefndarálits. Frumvarp Áslaugar um breytingar á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili var samþykkt í allsherjar- og menntamálanefnd í febrúar á árinu en hún lagði frumvarpið fram í lok september í fyrra. Sem formaður utanríkismálanefndar afgreiddi Áslaug þriðja orkupakka Evrópusambandsins úr nefndinni áður en hann kom til annarrar umræðu á Alþingi í sumar en orkupakkinn var samþykktur með miklum meirihluta þingmanna á Alþingi sl. mánudag.

Ríkisstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær.
Ríkisstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær. mbl.is/​Hari

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að Bjarna Benediktssyni hafi þótt frammistaða Áslaugar í orkupakkamálinu sýna að hún gæti tekist á við stór og flókin álitamál en hann sagði hana hafa vaxið og eflst með hverri raun.

„Það sem allir taka eftir er að hún hefur brennandi áhuga á stjórnmálum og að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Það eru hennar sterkustu kostir. Hún er spennt fyrir því að hrinda hlutum í framkvæmd og láta til sín taka. Hún er líka góður ræðumaður,“ sagði Bjarni um Áslaugu í samtali við mbl.is í fyrradag. Sagði hann hana auk þess vera góðan ræðumann og óvenju þroskaða miðað við ungan aldur.

Brennandi áhugi á stjórmálum

Áslaug fæddist í Reykjavík 30. nóvember 1990 og ólst upp í Vesturbænum og Árbænum. Foreldrar hennar eru Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður og Kristín Steinarsdóttir kennari sem lést árið 2012. Áslaug á tvö systkini, eldri bróðurinn Magnús og yngri systur, Nínu Kristínu.

Hún útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 2010. Sama ár var Áslaug starfsmaður jafningjafræðslu Hins hússins. Hún útskrifaðist með BA-próf í lögfræði við Háskóla Íslands árið 2015 og meistaragráðu árið 2017.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert