„Við erum mjög þakklát nemandanum“

Engilbert er forseti læknadeildar Háskóla Íslands.
Engilbert er forseti læknadeildar Háskóla Íslands. mbl.is/safn

„Við erum mjög þakklát fyrir að þetta skyldi uppgötvast í tæka tíð. Það er auðvitað mjög leiðinlegt að svona hlutir hafi gerst. Ég hringdi beint í alla þessa nemendur og bað þá afsökunar um leið og ég bauð þeim að koma inn í námið.“

Þetta segir Engilbert Sigurðsson, forseti læknadeildar Háskóla Íslands, prófessor  í geðlæknisfræði og yfirlæknir á LSH, í samtali við mbl.is vegna reiknivillu sem uppgötvaðist í prófsýningu inntökuprófa í læknisfræði við HÍ í vikunni og varð til þess að einkunn fimm nemenda, sem áður höfðu ekki verið meðal 55 efstu í prófinu, hækkaði umtalsvert. Þessir fimm nemendur færðust í 23. til 52. sæti á lista yfir hæstu nemendur og var þeim í kjölfarið boðið pláss í læknadeildinni, þremur vikum eftir að önnin hófst.

Engilbert segir að þetta hafi komið flatt upp á nemendurna enda flókin tíðindi að fá en allir hafi þeir staðfest samdægurs að þeir myndu þiggja plássið í náminu.

Aldrei séð svona reiknivillu áður

Inntökupróf var tekið upp við læknisfræðideildina fyrir tæpum áratug og á hverju ári er fjöldi nemenda sem komast inn í námið ákveðinn fyrirfram. Í ár var fjöldinn ákveðinn 54. Tveir nemendur reyndust svo vera með jafnháa einkunn og varð fjöldinn því 55. Eftir að reiknivillan komst upp bættust svo við fimm nemendur og er fjöldinn því orðinn 60.

„Við höfum ekki séð svona villu áður. Það hefur gerst einstaka sinnum við prófskoðun að nemendur reki augun í eitthvað sem má betur fara og það hefur leitt til þess að einn eða tveir nemendur eru teknir inn í námið í lok ágúst eða byrjun september,“ útskýrir Engilbert og heldur áfram:

„Núna rakst nemandi hins vegar á annars konar villu núna bara seinni hluta vikunnar og gerði okkur aðvart. Það var reiknivilla í prófinu og við höfðum samband við stærðfræðinginn sem reiknar út úr prófinu, hann fékk stærðfræðing til liðs við sig sama kvöld til að fara yfir útreikninga og það leiddi til þess að niðurstaðan breyttist hjá fimm nemendum sem komust í sæti 23 til 52.“

Verklaginu verður breytt til að koma í veg fyrir annað óhapp

Engilbert ítrekar að þetta hefði getað farið verr því enginn hafi komist inn í námið á röngum forsendum heldur hafi efstu 60 nemendurnir komist inn. Þó að upphaflega hafi einungis verið gert ráð fyrir 55 nemendum hafi langtímamarkmið lengi verið að koma 60 nemendum inn í námið.

„Það voru engir nemendur sem fengu of háa einkunn út af þessari reiknivillu. 60 er sú tala sem var búið að samþykkja á deildarfundi fyrir nokkrum árum og við höfðum reiknað með að fara í þann fjölda frá og með næsta ári. En gerum það í raun einu ári fyrr út af þessari villu,“ bætir hann við.

Verklagi verður breytt í framhaldinu til að koma í veg fyrir að svona óhapp komi fyrir aftur. Hingað til hefur einn stærðfræðingur séð um að fara yfir prófin og reikna út niðurstöður þeirra en nú mun deildin ráða annan stærðfræðing sem einnig mun koma að útreikningum.

„Það er í öllu sem bæði menn og tölvur koma að að það koma upp einhverjar villur. Við erum bara þakklát nemandanum sem tók eftir þessu og benti okkur á þetta,“ segir hann að lokum.

mbl.is