„Ég hlusta og hugsa þetta“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, kveðst í samtali við mbl.is enn vera að íhuga framboð til ritara Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur ekki tekið ákvörðun um að bjóða sig fram. Jón Gunnarsson, þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi, er sá eini sem gefið hefur kost á sér enn sem komið er.

„Ég hef heyrt í fólki um helgina og margir eru á því að sterkt væri að fá þarna inn rödd af sveitarstjórnarstiginu. Ég hef verið að heyra hvað fólki finnst en er ekki búinn að taka ákvörðun,“ segir Eyþór. Staðan er laus eftir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var skipuð dómsmálaráðherra á föstudag, en samkvæmt skipulagsreglum flokksins er ritara flokksins óheimilt að gegna ráðherraembætti á sama tíma.

Standi saman um það sem sameini sjálfstæðismenn

„Ég hlusta og hugsa þetta. Þetta kom bara upp á föstudaginn, þannig að það er fínt að hugsa þetta yfir helgina,“ segir Eyþór, en sem fyrr sagði finnur hann fyrir áhuga á því að sveitarstjórnarmanneskja setjist í ritarastól. „Ég hef verið bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni, þannig að það væri þá skilningur á mismunandi aðstæðum,“ segir Eyþór. „Í mínum huga er allavega mikilvægt að við stöndum saman um það sem sameinar okkur. Það væri verkefni fyrir þann sem tekur þetta að sér,“ segir hann.

Nýr ritari verður valinn á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins næstu helgi, 14. september. Forysta Sjálfstæðisflokksins er skipuð þremur: Formanni, varaformanni og ritara. Ritari ber sérstaka ábyrgð gagnvart innra starfi flokksins gegni formaður og varaformaður ráðherraembætti að því er fram kemur í skipulagsreglum flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert