Fleiri foreldrar nýta rétt til fæðingarorlofs eftir hækkun hámarksgreiðslna

Foreldrum sem þiggja greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, og nýta þar með rétt sinn til fæðingarorlofs, hefur fjölgað samhliða hækkunum á hámarksgreiðslum úr sjóðnum. Þannig nýttu 95 prósent foreldra, sem áttu rétt til fæðingarorlofs árið 2018, rétt sinn samanborið við 91 prósent foreldra árið 2015. 

Að hluta má rekja þá hækkun til þess að fleiri foreldrar nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en auk þess eiga fleiri foreldrar rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði en áður og færri foreldrar fá greidda fæðingarstyrki sem greiddir eru beint úr ríkissjóði. Þá hefur hækkun hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði bein áhrif á útgjöld sjóðsins auk þess sem fleiri foreldrar fá greiddar hámarksgreiðslur úr sjóðnum vegna almennt hærri launa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.

Þar er tekið fram, að eitt af grundvallarmálefnum ríkisstjórnarinnar sé að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því meðal annars að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs og hækka mánaðarlegar hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi.

„Miðað við boðaða lengingu og hækkun má gera ráð fyrir að heildarútgjöld til fæðingarorlofs verði 20 milljarðar árið 2022 samanborið við 10 milljarða árið 2017 á verðlagi hvers árs sem er tvöföldun á tímabilinu,“ segir í tilkynningunni.

Til stendur að lengja fæðingarorlof foreldra og mun Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á haustþingi 2019 þar sem lögð verður til lenging á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf. Í frumvarpinu verður gert ráð fyrir að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021, að því er ráðuneytið greinir frá. 

 

mbl.is