Þjálfari síns eigin Manchester United

„Ég man bara alltaf að þegar ég kom hérna í …
„Ég man bara alltaf að þegar ég kom hérna í skoðun­ar­ferð þegar ég var tutt­ugu og tveggja ára í leik­hús­námi vor­um við spurð við enda túrs­ins hvað við vild­um gera í lífinu. Ég sagði: Mig lang­ar að leik­stýra í þessu leik­húsi,“ seg­ir Þor­leif­ur Örn Arnarsson, sem nú er leikstjóri í þessu leikhúsi, Volksbühne í Berlín, en ekki bara það, heldur er hann yfirmaður leikhúsmála á staðnum. Næst á dagskrá, og styttist óðfluga í það: Eine Odyssee, verk Þorleifs og Mikaels Torfasonar. Ljósmynd/Meike Kenn

Seg mér, sönggyðja, frá hinum víðförla manni, er hraktist mjög víða, ekki Ódysseifi endilega, heldur Þorleifi Erni leikstjóra öllu heldur! Eða jú, látum Ódysseif nægja rétt í augnablikinu, því ævintýri Þorleifs eru ekki beint hrakningar: „Sing für mich Musa, von einem Kämpfer, einem Krieger, der gegen alle Erwartungen überlebte,“ syngur konan á sviðinu við undirleik mikillar hljómsveitar, og Þorleifur þýðir jafnóðum í eyrun á okkur sem sitjum með honum í tómri áhorfendastúkunni: „Segðu mér, sönggyðja, af bardagakappanum, af stríðsmanninum, sem þvert á dimmar horfur lifði af!“

Og Þorleifur ræður sér ekki af innlifun á meðan hann verður vitni að afrakstri erfiðis síns á sviðinu og þýðir hann í beinni fyrir okkur, við erum staddir þarna, ég, Frosti Logason fjölmiðlamaður og Ingibergur Ragnarsson verkfræðingur, þeir vinir Þorleifs. Stíft er æft á lokametrunum í Volksbühne, einu fremsta leikhúsi Þýskalands og þó mun víðar væri leitað, þar sem Þorleifur Örn Arnarsson er listrænn stjórnandi, eiginlega leikhússtjóri, 41 árs að aldri, og leikstjóri í þessu tiltekna leikverki, Ódysseifskviðu.

Það er hægara sagt en gert að fá viðtal við manninn nú þegar óðum styttist í frumsýningu á Eine Odyssee, en ég sæti samt færis, tek viðtalið, þó að það sé svo að segja tekið á hlaupum um allt hús. Klukkan er sex síðdegis í Berlín þegar hóað er í leikhópinn sem er á víð og dreif um salinn og sviðið, það er komið að eine Pause, og Þorleifur leiðir okkur gestina síðan upp á svið og baksviðs alla leið í kantínuna, veitingasalinn fræga sem allar helstu hetjur þýsks leikhúss hafa átt leið um, og eiga margar enn. Þar eru eftirpartíin eftir frumsýningarnar.

Það er allt á fullu í Volksbühne: Eine Odyssee er …
Það er allt á fullu í Volksbühne: Eine Odyssee er frumsýnd 12. september. Á myndinni bendir Þorleifur Örn Frosta Logasyni áhugasömum fjölmiðlamanni á hvaðeina í sviðsmyndinni. mbl.is/Snorri

Það er kvöldmatur og við setjumst niður, við fyrrnefndir, Þorleifur, og Sólveig Arnarsdóttir leikkona, systir hans, sem eins og Íslendingar vita hefur gert garðinn frægan á sviði þýskrar leiklistar um árabil. Sú leikur hina gæfulausu en um leið grimmu gyðju Kalypsó í sýningunni og bregður sér einnig í hlutverk móður Ódysseifs þegar hann ferðast í undirheima.

Eins manns næstum því dauði ...

Systkinin hafa unnið saman í hvað, sjö sýningum, rifja þau upp, jafnt í Þýskalandi sem á Íslandi, jafnt í Mutter Courage und ihrer Kinder sem í Englum alheimsins. „Okkur lætur mjög vel að vinna saman,“ segir Sólveig ákveðin og Þorleifur glettinn en vitaskuld alvarlegur í senn: „Já, ef maður lítur bara fram hjá því aðeins að það sé alltaf verið að lemja hana og misþyrma henni á sviðinu.“ 

Sólveig Arnarsdóttir leikkona hefur leikið í Þýskalandi árum saman, lærði …
Sólveig Arnarsdóttir leikkona hefur leikið í Þýskalandi árum saman, lærði þar enda leiklist. Hér hlýðir hún á orð bróður síns, leikstjórans, og það sama gerir Seifur í miðjunni, örlagavaldur í lífi Ódysseifs, hér leikinn af þýskri konu. Ljósmynd/Vincenzo Laera

„Stundum koma auðvitað mjög sérstök augnablik,“ segir Sólveig, „en við höfum oft lent í því og líka núna hérna, að fólk, sem ekki veit fyrirfram að við erum systkini, hefur unnið með okkur vikum saman, og er síðan allt í einu bara: „Ha, eruð þið systkini?““ Þorleifur samsinnir þessu en tekur fram að auðvitað séu þau ekkert gagngert að „fela það“ heldur bara blandi þau þessu ekki saman. 

Systureðlið fær þó vart dulist þegar Þorleifur spýtir skyndilega út úr sér dökkri pintóbaun sem leynst hafði í kvöldmatnum hans. Sólveig, fimm árum eldri, verður skyndilega alvarleg til augnanna: „Þorleifur, passaðu þig,“ segir hún, og fylgist með honum drífa sig með eitrið í ruslið. Það kemur í ljós að hann er með alvarlegt ofnæmi fyrir svona baunum, má einfaldlega alls ekki á þeim bragða, en sleppur að sinni fyrir horn. Og hvað gerir hann þá við matinn? Hann gefur mér hann, svöngum blaðamanni, sem tekur glaður til matar síns, enda eilíft lögmál: eins næstum því dauði er annars brauð.

„Okkur lætur vel að vinna saman,“ segir Sólveig. „Ef maður …
„Okkur lætur vel að vinna saman,“ segir Sólveig. „Ef maður lítur fram hjá því að verið sé að lemja hana og misþyrma henni á sviðinu,“ segir Þorleifur. Systkinin hafa unnið saman í fjölda uppsetninga á Íslandi og í Þýskalandi. Ljósmynd/Vincenzo Laera

Siglt inn í tíma fíflanna 

„Skrípaleikur handa okkar ófrjóu smánartímum, þegar trúðar setja á svið fornar dáðir hetja og konunga,“ stendur áletrað tröllauknu letri aftast á sviðinu, hvít málning á svörtum tjöldum. Það er tilvitnun í Söngva Satans eftir Salman Rushdie, skírskotun sem Þorleifur útskýrir, þar sem við stöndum á sviðinu, að hafi bæði persónulega þýðingu fyrir hann, þar sem honum var nýlega meinað að setja þá mjög svo umdeildu bók á svið í öðru leikhúsi, en einnig eigi setningin fullkomlega við það sem er að gerast á sviðinu, það sem er að gerast í Ódysseifskviðu. 

Ódysseifur, Kalypsó (Sólveig) og umrætt tjald í baksýn. Kalypsó heldur …
Ódysseifur, Kalypsó (Sólveig) og umrætt tjald í baksýn. Kalypsó heldur Ódysseifi föngnum á eyju sinni um árabil, haltu mér, slepptu mér, og að lokum sleppir hún honum, og hann hrökklast heim til Íþöku. Tjaldið er ein af mörgum vísunum í verkinu, í bókmenntir hingað og þangað, í þessu tilfelli í Söngva Satans, bók Salman Rushdie. Ljósmynd/Vincenzo Laera

„Þessi setning gæti náttúrlega bara verið bein lýsing á ástandinu um allan heim, þar sem við erum komin með pólitíska trúða í allar helstu valdastöður. Við erum hérna að vinna með þá hugmynd að við séum að sigla inn í tíma fíflanna, þar sem maður upplifir hversdagslegan bardaga á milli reiðinnar og skynseminnar, og þar verður notadrjúgt að sækja í þennan samevrópska arf, sem við fengum í vöggugjöf öll, og spegla þessar sögur inn í nútímann,“ segir Þorleifur. 

Eine Odyssee er skrifað á ensku af Þorleifi og Mikaeli Torfasyni rithöfundi en þýtt á þýsku af Damiàn Dlaboha, sem einnig hefur verið Þorleifi innan handar á öðrum vettvangi, svo sem í Eddunni, sem hann og Mikael settu upp í Hannover 2017 og Þorleifur var valinn leikstjóri ársins í Þýskalandi fyrir. Leikritið er á þýsku, og verður sýnt á þýsku, eðlilega í þessu þýska leikhúsi. Nýmælin eru þó þau, að það verður textað á ensku í leikhúsinu, og hið sama verður gert í öllum sýningunum í Volksbühne í ár. „Berlín er bara orðin svo international, þannig að þetta er í rauninni ekki umdeild ákvörðun einu sinni,“ segir Þorleifur. 

Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason hafa unnið saman að …
Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason hafa unnið saman að fjölda verkefna, Eine Odyssee er enn önnur afurð þess samstarfs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Schauspieldirektor. Eða þjálfari Manchester United

Og það er rétt, Berlín er international, og sú staðreynd er áþreifanleg inni í leikhúsinu þar sem ég elti Þorleif, sem þýtur um sviðið og baksviðið, allt hans fas meira eins og ofvirks krakka en virðulegs leikstjóra í þýsku leikhúsi. Hann og systir hans tala saman á íslensku en eru síðan ekki lengi að skipta yfir í þýsku þegar Þjóðverji ratar inn í samtalið og svo ensku þegar annar Íslendingur bætist við, enda Íslendingarnir sem vinna að sýningunni þónokkrir, fæstir þýskumælandi, eins og vill verða með íslenska flóttamenn hér á þessum slóðum. 

Þorleifur varð leikhússtjóri, eða Schauspieldirektor upp á þýsku, sem er torþýtt, þýðir í raun yfirmaður leikhúsmála, í Volksbühne núna í haust og þetta er fyrsta sýningin hans. Hann er þó þegar öllum hnútum kunnugur á staðnum, lærði leikstjórn í Berlín 2005-2009 í sama skóla og systir hans hafði áður lært leiklist, við leiklistarskóla Ernst Busch, einn virtasta leiklistarskóla í landinu.

Ferlið sem er í gangi í leikhúsinu virðist eitt smurt gangverk, hópur leikara situr í einu horni og ber saman bækur sínar, hljómsveitarmenn í öðru, og sem ég elti Þorleif baksviðs mætum við leikkonunni sem fer með hlutverk Penelópu í leikritinu, þar sem hún er umkringd hópi tæknimanna, að skipa þeim fyrir um hvernig þeir eiga að byggja einhvers konar búr utan um hana, eða, ímynda ég mér, spunarokkinn, þennan sem hún notaði til að spinna á daginn klæði til þess eins að rekja þau aftur í sundur yfir nóttu, af því að vonbiðlarnir lifðu í falskri trú um að þegar klæðin væru tilbúin myndi hún velja sér mann. Það var blekking. 

Sviðsmyndin er gróf og endurspeglar eitthvað allt annað en umhverfið …
Sviðsmyndin er gróf og endurspeglar eitthvað allt annað en umhverfið við Miðjarðarhaf á 12. öld fyrir Krist. En stundum gerast heppilegar tilviljanir, eins og sést á þessum ruslagámum sem voru fengnir á sviðið, Sísýfos! Þetta var óviljandi, segir Þorleifur, en óneitanlega skemmtileg vísun í gríska goðafræði sem er auðvitað uppistaðan í Ódysseifskviðu. Sísýfos var semsagt auminginn sem var dæmdur til hins eilífa verkefnis að ýta steini upp á hól, aðeins til þess að hann ylti aftur niður. Og þá tók endurtekningin við, hin eilífa endurtekning, ekki ósvipað pakkanum sem Penelópa var komin í, sem spann og spann, í því skyni að slá ryki í augu vonbiðlanna, á meðan biðin eftir Ódysseifi lengdist. mbl.is/Snorri

„Eins og þið sjáið hérna, þá tekur leikkonan bara frumkvæði og gengur í verkið með tæknimönnunum. Það er ekki erfitt að sjá um vinnu þar sem allir eru svona sjálfstæðir. Maður þarf bara að stýra ákveðnu listrænu ferli þar sem allir þora að taka af skarið. Gera,“ segir Þorleifur.

Hann er stoltur af leikhúsinu, talar fallega um staðinn, og á sannast sagna erfitt með að koma orðum að því hvernig tilfinning það er að gegna þessu hlutverki. „Ef ég á að nota líkingamál þá get ég sagt að þetta sé eins og að verða þjálfari knattspyrnuliðsins Manchester United eftir að hafa fylgst með þeim frá unga aldri. Ég man bara alltaf að þegar ég kom hérna í skoðunarferð þegar ég var tuttugu og tveggja ára í leikhúsnámi vorum við spurð við enda túrsins hvað við vildum gera í lífinu. Ég sagði: Mig langar að leikstýra í þessu leikhúsi,“ segir Þorleifur.

Og hér er hann.

En hann má ekki vera að þessu, hann þarf að fara að vinna, það er frumsýning 12. september, og þeir sem þekkja til í leikhúsi vita að í síðustu vikunni gerist ekki bara margt, heldur allt.

Undir lok sýningar flýtur inn á sviðið ljóð Heiner Müller, …
Undir lok sýningar flýtur inn á sviðið ljóð Heiner Müller, þýsks leikskálds sem leikstýrði fjölda sýninga í Volksbühne, og með því vísar Þorleifur í sögu leikhússins. Þetta er sonnetta, Traumwald að nafni, Draumskógur, „Ég gekk í gegnum skóg í draumi, hann var fullur af hryllingi, allt samkvæmt stafrófinu, og tóm til augnanna mættu mér dýrin sem stóðu á milli trjánna, með augnaráðið sem ekkert augnaráð fær skilið.“ Ljósmynd/Vincenzo Laera

Af Ódysseifi og hrakförum hans, rétt í lokin

Ódysseifskviða Hómers er söguljóð um hrakfarir stríðshetjunnar Ódysseifs. Hún er önnur tveggja kviða Hómers, sem, ef hann var þá yfir höfuð söguleg persóna, ef hann var til, var uppi á 8. öld fyrir Krist. Ljóðið er eins og ljóðum sæmir í bundnu máli en prósaþýðing Sveinbjarnar Egilssonar, sem fyrst kom á prent um miðja 19. öld, hefur algerlega staðist tímans tönn og er enn ein heildarþýðing Íslendinga á verkinu. Ódysseifur mælir fram harma sína í þessu verki og uppistaðan í textanum er frásögn hans af hrakningum hans við Miðjarðarhafið, eftir að Trójustríðinu lýkur. Hann vill komast heim en honum virðast allar bjargir bannaðar, þangað til hann loks kemst heim við illan leik. Og þá taka alls kyns vandræði við. 

Þó að Berlín sé international, er öll umgjörðin vitaskuld á …
Þó að Berlín sé international, er öll umgjörðin vitaskuld á þýsku, og hér má sjá listilega túlkun grafíklistamanns á söguefninu á plakati utan á Volksbühne, sögufrægri byggingu frá upphafi 20. aldar. mbl.is/Snorri

Titill Eine Odyssee þeirra Mikaels og Þorleifs þýðir eiginlega Ódysseifsför, á meðan í daglegu tali tala Þjóðverjar um Die Odyssee þegar vísað er til verksins sjálfs. Leikverkið er framúrstefnuleg endurvinnsla á texta Ódysseifskviðu en uppistaðan í því verður engu að síður áfram framsögn Ódysseifs sjálfs, sem leikinn er af hinum þýska Daniel Nerlich. Hann mun segja ferðasöguna í sinni útgáfu, segir Þorleifur, þó að þeir Mikael hafi skrifað túlkunina, rammann utan um leikverkið. Í þeirri túlkun gætir áherslu á hlutverk karlmannsins; leitað er svara við stóru spurningunum um feðraveldið og þeirra er leitað í sögu Ódysseifs, hins sígrátandi Ódysseifs, sem er að sögn Þorleifs trámatíseraður eftir stríðið og tilneyddur til hugmyndafræðilegar endurskoðunar, ástand sem vel má heimfæra á alla hermenn fyrr og síðar.

Já, sönggyðja, þú segir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert