Tímabært að huga að heildarendurskoðun lögreglumála

Embætti ríkislögreglustjóra furðar sig á yfirlýsingu frá landssambandi lögreglumanna sem birst hefur í fjölmiðlum í dag, en stjórn Lands­sam­bands lög­reglu­manna sagði í ályktun að ákvörðun dóms­málaráðuneyt­is um að fara fram á al­hliða stjórn­sýslu­út­tekt á embætti rík­is­lög­reglu­stjóra væri orðin löngu tíma­bær.

„Um langt skeið hef­ur ríkt mik­il óánægja meðal lög­reglu­manna með störf yf­ir­stjórn­ar embætt­is rík­is­lög­reglu­stjóra,“ seg­ir í álykt­un sem stjórn­in hef­ur sent frá sér.

Fram kemur í athugasemd frá ríkislögreglustjóra, að stjórn landssambandsins hafi ekki haft neitt samband við embætti ríkislögreglustjóra til að ræða áhyggjur sem hún kveðst hafa af stöðu mála né sett fram nokkur umkvörtunarefni.

„Landssamband lögreglumanna á fulltrúa bæði í fata- og búnaðarnefnd og bílanefnd embættisins og hefur formaðurinn meðal annarra sjálfur setið í þeim. Fulltrúi landssambandsins hefur unnið með embættinu að útboði á einkennisfatnaði fyrir lögreglumenn sem birtast mun innan skamms.

Þegar liggur fyrir að bílamiðstöð verður lögð niður og mikilvægt er að nýtt fyrirkomulag tryggi að áfram verði keypt traust og öflug lögregluökutæki,“ segir í athugasemd ríkislögreglustjóra.

„Ríkislögreglustjóri hafði sjálfur frumkvæði að því að óska eftir því við ríkisendurskoðanda að fram færi úttekt á bílamiðstöð og áhrifum þeirra breytinga sem ný lög um opinber fjárlög hafa haft á reksturinn.

Ríkislögreglustjóri telur að tímabært sé að hugað verði að framtíðarskipan lögreglu og skynsamlegt væri að stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda myndi beinast að heildarendurskoðun lögreglumála í landinu,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert