Andlát: Bjarni Kristjánsson rektor

Bjarni Kristjánsson.
Bjarni Kristjánsson.

Bjarni Kristjánsson, fyrrverandi rektor Tækniskólans, lést föstudaginn 6. september á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, níræður að aldri.

Bjarni fæddist 18. maí 1929 á Norður-Hvoli í Mýrdal. Foreldrar hans voru Kristján Bjarnason og Kristín Friðriksdóttir. Bjarni var elstur átta systkina.

Bjarni lauk prófi sem vélaverkfræðingur frá Technische Hochschule í München árið 1956. Hann hóf störf á teiknistofu SÍS í Reykjavík sama ár og var þar í þrjú ár. Hann var verkfræðingur hjá Olíufélaginu Skeljungi hf. frá 1959 til 1961 og hjá flugher Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli frá 1961 til ársins 1964 þegar Tækniskóli Íslands var stofnaður.

Bjarni var kennari þar frá stofnun skólans og varð rektor hans árið 1966. Gegndi hann þeirri stöðu næstu 24 árin, fram til ársins 1990. Þó að Bjarni léti af störfum sem rektor sinnti hann áfram stundakennslu í tæknigreinum í nokkur ár eftir rektorstímabilið.

Bjarni átti ýmis áhugamál, svo sem bóklestur, kveðskap, stjórnmál, fjallgöngur og badminton. Hann var mikill áhugamaður um veiði, bæði skotveiðar og á stöng. Bjarni var einn af stofnfélögum Ármanna, félags um stangveiði á flugu, árið 1973 og var formaður þess árin 1974-1976 og aftur frá 1978-1979. Bjarni var einnig formaður Skotvís, félags skotveiðimanna, árin 1992-1993. Árið 2012 gaf hann út bókina Glettni veiðigyðjunnar ásamt þeim Árna Birni Jónassyni og syni sínum Kristjáni Bjarnasyni, en í henni eru raktar sögur Bjarna af veiðum.

Hann kvæntist Snjólaugu Bruun 3. janúar 1953. Þau áttu saman sex börn og eru afkomendur þeirra orðnir 34 að tölu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »