Áslaug Hulda gefur kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins

Áslaug Hulda Jónsdóttir.
Áslaug Hulda Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs í Garðabæ, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins í kjörinu sem fram fer á flokksráðsfundinum hinn 14. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé flokknum nauðsynlegt að í forystu hans sé fulltrúi sveitarstjórnarstigsins. Stórir og mikilvægir málaflokkar eru undir og þá hafa einnig margir af stærstu sigrum flokksins unnist í einstökum sveitarfélögum. Þar liggur okkar sterka grasrót og að henni þarf að hlúa vel. Ég hef skipað 1. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í síðustu þrennum sveitarstjórnarkosningum, þ.m.t. í síðustu kosningum þegar flokkurinn landaði sinni bestu niðurstöðu og fékk 62% fylgi og átta bæjarfulltrúa af ellefu í bæjarstjórn. Það var um leið besta niðurstaða Sjálfstæðisflokksins á landinu. Slíkur árangur næst ekki af sjálfu sér í sívaxandi bæjarfélagi og ég tel mig hafa margt fram að færa í forystu Sjálfstæðisflokksins,“ segir Áslaug Hulda í tilkynningu.

Hún býr að áralangri reynslu úr starfi Sjálfstæðisflokksins og vettvangi sveitarstjórnar sem formaður bæjarráðs, forseti bæjarstjórnar, bæjarfulltrúi, aðstoðarmaður ráðherra og kosningastjóri í sveitarstjórnar- og alþingiskosningum auk annarra trúnaðarstarfa.

Ég trúi að flokkurinn eigi mikið inni hjá kjósendum um allt land. Það er hlutverk kraftmikillar forystu flokksins að virkja almennilega sem flesta flokksmenn til að uppskera sem mest,“ segir Áslaug ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina