Býst við annarri niðurstöðu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/​Hari

„Það er gott að málið verði metið öðru sinni,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um ákvörðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu að taka fyr­ir lands­rétt­ar­málið sem fjall­ar um það hvernig staðið var að skip­un fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í mars að íslenska ríkið hefði brotið gegn sjöttu grein Mannréttindasáttmála Evrópu og var ríkið dæmt til að greiða 15 þúsund evrur í málskostnað. Stjórnvöld áfrýjuðu dómnum og nú er ljóst að yfirdeild MDE mun taka málið fyrir.

Áslaug segir að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á að málið færi til yfirdeildarinnar. Spurð hvort hún búist við annarri niðurstöðu en í mars segir Áslaug að ekki hefði verið óskað eftir endurskoðun ef það væri ekki talið líklegt. 

„Við töldum niðurstöðuna ganga of langt og því óskuðum við eftir endurskoðun.“

Nýskipaður dómsmálaráðherra segist munu ræða málið í ríkisstjórn á morgun. Mikilvægt sé að staðið verði eins vel að málatilbúnaði fyrir Íslands hönd og kostur er. 

Töluvert hefur verið fjallað um réttaróvissu á meðan fjórir dómarar eru í leyfi vegna landsréttarmálsins. „Dómararnir dæma sjálfir um sitt hæfi. Þeir taka væntanlega einhvern tíma núna til að meta stöðu sína að nýju,“ segir Áslaug og bendir á að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir séu löglega skipaðir.

Áslaug Arna segir að hún hafi nú þegar óskað eftir upplýsingum um fjölda mála og stöðu þeirra við Landsrétt.

mbl.is