Gekk berserksgang í Vestmannaeyjum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa í mars á þessu ári stungið göt á hjólbarða lögreglubifreiðar, hótað lögreglumönnum líkamsmeiðingum og lífláti og fyrir að hafa kveikt í teppum í fangaklefa og valdið frekari skemmdum í klefanum.

Samkvæmt ákæru embættis héraðssaksóknara skar maðurinn göt á öll fjögur dekk lögreglubifreiðar sem stóð mannlaus í Vestmannaeyjum. Þá hótaði hann ítrekað sjö lögreglumönnum sem voru á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum og fjölskyldum þeirra líkamsmeiðingum og lífláti.

Maðurinn lét ekki þar við sitja, en hann er einnig ákærður fyrir eignaspjöll með því að hafa borið eld og kveikt í tveimur teppum þegar hann var í fangaklefa á lögreglustöðinni. Þá reif hann upp bólstraðan kodda og tætti hann.

Auk þess að fara fram á að maðurinn verði dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni fer ríkislögreglustjóri fram á að manninum verði gert að greiða embættinu bætur upp á um 119 þúsund krónur vegna tjóns á hjólbörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert