Líklegt að yfirdeildin komist að sömu niðurstöðu

Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Mannréttindadómstóll Evrópu telur landsréttarmálið það mikilvægt fyrir túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu að nauðsynlegt þykir að fá niðurstöðu yfirdeildar dómstólsins. Þetta er mat Bjargar Thorarensen, lagaprófessors við Háskóla Íslands. 

Björg sagði í kvöldfréttum RÚV að með ákvörðun yfirdeildarinnar að fjalla um landsréttarmálið framlengdist það óvissuástand sem uppi hefur verið vegna málsins, þ.e. frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í mars að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmálans með skipan fjögurra dómara í Landsrétt sem ekki voru á lista sérstakrar hæfisnefndar. 

„Það liggur ekki fyrir endanlegur dómur í þessu kærumáli fyrr en yfirdeildin hefur lokið við meðferð málsins,“ sagði Björg. Þá benti hún á að fyrir yfirdeildinni er málið skoðað algjörlega ofan í kjölinn á nýjan leik, aðilar máls skila inn greinargerðum, auk þess sem munnlegur málflutningur mun fara fram. „Síðan kveður yfirdeildin upp sinn endanlega dóm og þá fyrst er komin lokaniðurstaða frá Mannréttindadómstólnum um þetta kæruefni,“ sagði Björg.  

Ítarlegri og skýrari niðurstaða

Jafnvel þótt málinu verði forgangsraðað hjá yfirdeildinni telur Björg líklegt að dómur verði ekki kveðinn upp fyrr en í fyrsta lagi í lok næsta árs. 

Aðspurð hvaða niðurstöðu hún telji að yfirdeildin muni komast að segir Björg að einföldustu möguleikarnir séu annaðhvort brot eða ekki brot. En sama hver niðurstaðan verði muni rökstuðningur yfirdeildarinnar verða mjög ítarlegur. Þá segir hún tölfræðina benda til þess að yfirdeildin komist að sömu niðurstöðu og deildin. 

„En það getur verið að röksemdir verði allar miklu ítarlegri og hugsanlega skýrari í sumu tilliti en var í tilliti deildarinnar. Ég tel að það verði mjög ítarlegur rökstuðningur og hugsanlega þá betra að fá þá niðurstöðu, jafnvel þótt það verði aftur komist að niðurstöðu um brot á 6. grein,“ sagði Björg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert