Lýstu yfir stuðningi við ríkislögreglustjóra

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Deildarstjórar við embætti ríkislögreglustjóra sendu um miðjan júní í sumar yfirlýsingu til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, þar sem lýst var yfir fullum stuðningi við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra.

„Við, deildarstjórar við embætti ríkislögreglustjóra, lýsum yfir fullum stuðningi við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. Á þeim rúmlega 20 árum sem Haraldur Johannessen hefur gegnt starfi ríkislögreglustjóra hefur hann jafnan gengið fram sem ábyrgum og vönduðum embættismanni sæmir. Hann hefur verið farsæll í störfum sínum og stýrt embættinu af fagmennsku og festu,“ segir í yfirlýsingunni og áfram:

„Á niðurskurðartímum í kjölfar hruns fjármálakerfisins sýndi hann hversu annt honum er um starfsmenn, hag þeirra og velferð. Hann hefur jafnan staðið þétt með starfsmönnum á erfiðum tímum í lífi þeirra og á það jafnt við um veikindi sem annan persónulegan vanda. Haraldur Johannessen hefur stýrt umbótastarfi innan embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar, og í krafti embættisins staðið fyrir breytingum, framþróun og auknu jafnrétti.“

Fjárveitingarvaldið ekki hjá ríkislögreglustjóra

Enn fremur er látin í ljós sú ósk deildarstjóranna, samhliða því sem fullur stuðningur við Harald er ítrekaður, að deilum innan lögreglunnar um úthlutun fjármuna verði hætt.

„Alkunna er að ríkislögreglustjóri fer ekki með fjárveitingarvald og furðu vekur að ráðist sé gegn honum og embættinu á þeim forsendum. Fjárhagsvaldi lögreglunnar verður eingöngu leystur á vettvangi Alþingis og ríkisstjórnar. Opinberar deilur innan lögreglunnar eru fallnar til þess eins að grafa undan trausti til hennar. Við hvetjum starfsmenn og stjórnendur lögreglu til að setja niður deilur sínar og snúa saman bökum samfélaginu til heilla.“

Stuðningsyfirlýsingin er undirrituð af Ásgeiri Karlssyni, deildarstjóra greiningardeildar, Árna Albertssyni, deildarstjóra tölvudeildar, Ástþrúði S. Sveinsdóttur, deildarstjóra skjalastýringar og móttöku, Guðbrandi Guðbrandssyni, deildarstjóra stoðdeildar, Guðmundi Ómari Þráinssyni, deildarstjóra sérsveitar, Hjálmari Björgvinssyni, deildarstjóra almannavarnadeildar, Jónínu Sigurðardóttur, deildarstjóra fjarskiptamiðstöðvar, og Sólberg S. Bjarnasyni, deildarstjóra alþjóðadeildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert