Ótímabært að sameina lögregluembættin

LFS segir stöðuna sem upp er komin í fata- og …
LFS segir stöðuna sem upp er komin í fata- og bílamálum lögreglu ekki vera líðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglufélag Suðurlands (LFS) lýsir yfir stuðningi við Landssamband lögreglumanna vegna ályktunar sem send var fjölmiðlum um helgina og fagnar að fram eigi að fara stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra.

Fram kemur í yfirlýsingu sem LFS sendi frá sér í morgun að félagið telji að hraða eigi úttektinni svo niðurstaða komi sem fyrst og „ró geti skapast innan lögreglunnar í landinu“.

Er sú staða sem upp er komin í fata- og bílamálum lögreglu ekki líðandi að mati LFS sem skorar á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýjan dómsmálaráðherra, að beita sér fyrir því að þeim málum verði fundinn ásættanlegur farvegur hratt og örugglega.

„Ágreiningur sá sem nú er uppi milli lögreglustjóra í landinu og ríkislögreglustjóra, m.a. vegna málefna bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, er til þess fallinn að kasta rýrð á störf lögreglu og mun á endanum koma að mestu niður á öryggi lögreglumanna og almennings í landinu,“ segir í yfirlýsingunni.

LFS er þá ekki sammála hugmyndum Jóns F. Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra, um að lögreglan í landinu sé ein stofnun. Þær hugmyndir séu ótímabærar og til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna um embætti ríkislögreglustjóra og þá úttekt sem fram á að fara.

mbl.is