Sjúklega ávanabindandi efni

Kraftmikið þríeyki. Kristján, Sólrún og Eyþór láta sig málin varða. …
Kraftmikið þríeyki. Kristján, Sólrún og Eyþór láta sig málin varða. Þau gerðu þættina Óminni í forvarnarskyni. mbl.is/Árni Sæberg

Þau sem standa að gerð heimildarþáttanna Óminnis segja mikilvæga forvörn felast í því að foreldrar unglinga fái innsýn í heim vímuefnaneyslu. Í þáttunum eru nafnlaus viðtöl við einstaklinga sem eru eða voru í ólöglegri vímuefnaneyslu, en einnig talað við aðstandendur og fræðinga. Sólrún, Kristján og Eyþór vilja leggja sitt af mörkum, en strákarnir þekkja heljartak vímuefnafíknar af eigin reynslu.

„Þessi heimur hefur alltaf verið ljótur, en eftir að netið og samfélagsmiðlar komu til sögunnar þá hefur hann breyst rosalega hratt og harðnað. Það eru ekki lengur eingöngu jaðarhópar sem eru partur af vímuefnaheiminum, innan hans eru líka vel funkerandi einstaklingar sem standa sig vel í skóla, ósköp venjulegir krakkar. Okkur langar að sýna fólki hvernig ástandið er í raun og veru í undirheimum Reykjavíkur. Hversu hræðilegt það getur verið að vera ungur einstaklingur með fíkn í dag, það er rosalega hættulegt ástand. Fólk er í bráðri lífshættu,“ segir Kristján Ernir Björgvinsson, sem ásamt Eyþóri Gunnlaugssyni og Sólrúnu Freyju Sen gerði forvarnarþættina Óminni sem fóru í loftið á Stöð 2 í síðustu viku.

„Við tókum meðal annars viðtöl við 36 nafnlausa einstaklinga úr ólíkum áttum sem eru eða voru í neyslu og 19 þeirra höfðu misst einhvern úr vímuefnaneyslu nálægt sér, úr fjölskyldu eða vinahópi,“ segir Sólrún og bætir við að í næsta þætti sé viðtal við Einar Hermannsson sem á son sem var í neyslu. „Hann kemur inn á hvað þetta gerist hratt ef krakkar eru að fikta við læknadóp, eins og gerðist með son hans, neyslan varð svakalega hörð á örskömmum tíma.“

Eyþór bætir við að Einar Darri vinur þeirra sem lést fyrir ári sé enn eitt dæmi um þetta, en hann var nýbyrjaður að nota bensódíasepínlyf og ópíóða þegar það varð hans bani. Kristján segir að það hafi ekki hvarflað að honum að Einar Darri gæti dáið vegna þessa.

„Hann var ekki í harðri neyslu heldur eitthvað að fikta og prófa. Ég taldi mig vita hverjir væru öruggir og hverjir ekki en það er ekkert slíkt. Það er í raun happa og glappa hver deyr og hver sleppur. Sem er hryllingurinn í þessu. Margir halda að þeir sem látast af völdum neyslu á þessum sterku lyfjum séu einvörðungu harðir sprautufíklar en það er alls ekki þannig. Allir neytendur sem fikta við þessa tískubylgju eru í jafn mikilli hættu og því miður hefur neysla á þeim aukist mjög mikið meðal íslenskra ungmenna.“

Ég var fljótur á botninn

Kristján og Eyþór þekkja báðir þennan heim af eigin reynslu, eru óvirkir fíklar. Eyþór segir að þegar hann fór í neyslu á sínum tíma hafi þróunin verið mjög hröð.

„Allt fór mjög hratt á versta veg og ég var fljótur á botninn. Eftir að ég var kominn út úr þessu hafði ég mikla þörf fyrir að koma því á framfæri hvernig heimur vímuefnaneyslu á Íslandi er orðinn. Það er nauðsynlegt að upplýsa foreldra og eldri kynslóðina,“ segir Eyþór sem datt í lyfjaneyslu árið 2017. Þá fór allt úr böndunum.

„Ég tel mig mjög heppinn að hafa komist út úr þessu, en það var fyrst og fremst með hjálp foreldra minna. Fjölskylduástin kom mér út úr vímuefnaneyslunni. Ég sagði foreldrum mínum frá í hvaða vanda ég væri kominn, en auðvitað vissu þau að það var eitthvað í gangi, ég var uppdópaður í hvert sinn sem ég kom heim og var alltaf að ljúga að þeim. Maður sér eftir á hvað það brýtur fjölskylduna þegar unglingur er í neyslu, þau voru logandi hrædd um mig og það voru rifrildi á heimilinu öllum stundum.“

Kristján segir að sér finnist magnað að ömurlegt tímabili í lífi þeirra geti orðið til góðs og öðrum víti til varnaðar.

„Því vissulega er það kostur við svona þáttagerð að við Eyþór höfum báðir verið í neyslu og höfum því aðgang að fólki í heimi vímuefnaneyslu til að tala við í þáttunum. Við viljum setja forvarnarfræðsluna í nútímalegt umhverfi og krakkarnir taka mark á þeim sem hafa verið fíklar og þekkja þetta af eigin raun.“

Pissuprufur veita aðhald

Sólrún segir að það sé erfitt fyrir foreldra að átta sig á hvort börn þeirra eða ungmenni séu byrjuð í fíkniefnaneyslu því þau geti verið alveg einkennalaus.

„Til dæmis ef unglingur er alltaf pirraður, vill ekki tala við foreldra sína og er mikið úti á kvöldin getur það verið merki um neyslu, en það getur líka verið ósköp eðlilegt einkenni þess að vera unglingur, án þess að hann sé í neyslu. Ég mundi ráðleggja foreldrum að tala opinskátt um þetta við börnin sín, það er mikilvægt að fræðslan komi frá þeim. Að leggja áherslu á að foreldrarnir verði ekki reiðir ef börnin eru í neyslu eða séu að prófa. Að þau megi og eigi að tala um það við foreldrana. Traustið og trúnaðurinn skiptir öllu máli.“

Kristján segir að þróun fíknar fylgi engri formúlu, einkennin geti verið mjög mismunandi eftir einstaklingum, það sé engin ein birtingarmynd eða verksummerki.

„En um leið og foreldrar skapa umhverfi þar sem þau geta talað um þetta við börnin sín, þá geta þau gripið fyrr inn í ef það er ástæða til. Foreldrar eiga hiklaust að láta börnin í pissuprufu ef þá grunar hið minnsta, það skiptir engu þótt krakkinn verði pirraður í korter, hann verður líka pirraður ef hann er beðinn að vaska upp. Það líður hjá. Helst vera reglulega með pissuprufutékk, því það verður til þess að þau sleppa kannski einhverjum skiptum þar sem þeim er boðið að prófa fíkniefni. Í því felst mikið aðhald.“

Þau vilja að pissuprufur verði niðurgreiddar af ríkinu, því fíkn sé sjúkdómur sem unglingar eru í meiri áhættu en aðrir að þróa með sér. „Það ætti að skima fyrir honum eins og öðrum sjúkdómum.“

Fleiri reykja krakk en áður

Eitt af því sem er nýr veruleiki í fíkniefnaneyslu á Íslandi eru krakkreykingar. Krakk er gert úr kókaíni og íblöndunarefnum, því blandað saman og hitað svo úr verða kristallar og þeir síðan reyktir.

„Kókaínneysla hefur aukist rosalega hér, hún hefur aldrei verið meiri á tuttugustu og fyrstu öldinni á Íslandi og framboðið er mikið. Krakkreykingum fylgir rosalega sterk fíkn. Stelpa sem við töluðum við sem er krakkfíkill sagði að margir sprautufíklar væru hættir að sprauta sig en reyktu krakk í staðinn, tækju krakkið sem sagt fram yfir. Áhrifin af krakki koma strax en víman varir ekki nema í nokkrar mínútur. Fólk vill strax fá meira, fíknin er svo hörð,“ segir Sólrún.

„Þegar ég var í neyslu fékk fíkniefnasali mig til að prófa að reykja krakk en sem betur fer gerði ég það ekki rétt svo ég fann ekki áhrifin. Eftir á áttaði ég mig á að hann var að reyna að gera mig háðan þessu því þá mundi ég kaupa meira kókaín af honum,“ segir Eyþór.

Þau segja flesta viðmælendur sína, sem ýmist eru virkir eða óvirkir fíklar, hafa byrjað að fikta í vímuefnaneyslu á aldrinum 12 til 13 ára. „Algengast er að krakkar prófi þetta þegar þau hafa lokið tíunda bekk eða byrja í framhaldsskóla, en hjá þeim sem byrja fyrr er oftast eitthvað í lífi þeirra sem þau höndla ekki, það er ákall á hjálp,“ segir Eyþór.

Mjög hart ofbeldi og áföll

Það er ekki að ástæðulausu að þættirnir heita Óminni, því xanaxpillur sem krakkar eru að prófa eru oft heimapressaðar með íblöndunarefninu rohypnol, nauðgunarlyfinu sem veldur algjöru minnisleysi.

„Ég var meira og minna í blakkáti frá því ég prófaði xanax fyrst og þar til ég fór í meðferð,“ segir Kristján. „Þetta eru sjúklega ávanabindandi efni og þetta eru kæruleysislyf sem valda því að maður man ekkert. En aðalástæðan fyrir því að við völdum þetta nafn er sú að nánast allir fíklar sem við tókum viðtöl við höfðu prófað xanax og nánast allir höfðu upplifað blakkát. Það fer ekki vel með sálarlífið að vita ekki hvað maður hefur gert eða hvað gert var við mann. Maður þarf að halda uppi lygavef þegar maður er í neyslu, maður er alltaf að spila þetta leikrit af því að í blakkáti man maður ekki hverju maður laug eða að hverjum,“ segir Kristján. Eyþór bætir við að einn viðmælandi þeirra hafi sagt að flestir dómar sem hann hafi fengið á sig hafi verið vegna einhvers sem hann framkvæmdi í blakkáti.

„Þeir sem eru í neyslu lenda líka í mörgum áföllum því þessi heimur er mjög harður og þá er freistandi að leita í óminnisástand til að gleyma áföllunum. Þetta verður algjör vítahringur,“ segir Eyþór og bætir við að flestir viðmælendur þeirra í þáttunum hafi ofskammtað, orðið fyrir hverskonar andlegu og líkamlegu ofbeldi sem og kynferðisofbeldi. „Með þáttunum okkar vonumst við til að opna augu foreldra og koma í veg fyrir að ungt fólk lendi í þessum hryllingi.“

Næsti þáttur Óminnis verður sýndur á morgun þriðjudag í opinni dagskrá á Stöð 2, en fyrri þátt er hægt er að nálgast á visir.is undir flokknum sjónvarp.

Viðtalið við Kristján Erni, Eyþór og Sólrúnu Freyju birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. september 2019. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »