Stefna að því að synda yfir Ermarsundið í nótt

Marglytturnar hittu Peter Reed, skipstjóra á Rowena, bátnum sem mun …
Marglytturnar hittu Peter Reed, skipstjóra á Rowena, bátnum sem mun fylgja Marglyttunum yfir sundið. Ljósmynd/Aðsend

Marglytturnar, sem hyggjast synda boðsund yfir Ermarsundið, áttu góðan fund með skipstjóra Rowena í morgun. Það lítur út fyrir að hægt sé að nýta þennan glugga sem opnast í nótt til sundsins. Í kvöld gefur skipstjórinn út endanlega tímasetningu á sundinu. 

Veðurskilyrði fyrir Ermarsund hafa verið óvenjuslæm í sumar og margir sundmenn þurft að bíða lengi og jafnvel ekki komist af stað. Um helgina var von um að þær kæmust af stað en hætt var við á síðustu stundu. Þessi veðurgluggi er þó mun betri en sá sem var um helgina. „Við duttum í lukkupottinn,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, einn skipuleggjandi ferðarinnar, við mbl.is. 

Þetta tækifæri má ekki seinna vera því sundleyfi þeirra rennur út 10. september. Þær komu mánu­dag­inn 2. sept­em­ber til Do­ver og eru með sundrétt frá 3. til 10. sept­em­ber. Veðurskilyrði fyrir Ermarsund hafa verið óvenjuslæm þetta sumarið og margir sundmenn þurft að bíða lengi og jafnvel ekki komist af stað. Peter Reed, skipstjóri á Rowena, bátnum sem mun fylgja Marglyttunum yfir sundið, segir að í raun hafi bara komið ein góð veðurvika í allt sumar, samkvæmt upplýsingum frá Soffíu. 

Marglytturnar eru klárar í slaginn.
Marglytturnar eru klárar í slaginn. Ljósmynd/Aðsend

Marglytturnar hafa verið í Dover í um vikutíma og beðið af sér bræluna. Vindurinn hefur hangið í rúmlega 10 m/sek og haugasjór. Á meðan hafa þær verið duglegar við að æfa sig og undirbúa bæði andlega og líkamlega fyrir boðsundið. Áætlaður sundtími er 16-18 klukkustundir. Hver og ein marglytta syndir klukkustund í einu í fyrirfram ákveðinni röð.

Það flækir málin töluvert að ekki þarf bara logn og gott veður til að hægt sé að leggja af stað. Sjávarföllin þurfa að vera hagstæð og á sama tíma þarf veðrið að vera gott. Aðeins er lagt af stað í sund rétt fyrir háflóð sem er tvisvar á dag en þá hjálpa hinir sterku straumar sundmönnum áleiðis. Auk þess þarf helst að vera smástreymi, þar sem straumar í stórstreymi eru sérstaklega sterkir og erfiðir viðureignar. Það er svo aðeins smástreymi tvisvar í mánuði, þegar tungl er hálft vaxandi eða hálft minnkandi. 

Veðurglugginn er knappur sem Marglytturnar hafa til sundsins. Fljótlega að …
Veðurglugginn er knappur sem Marglytturnar hafa til sundsins. Fljótlega að sundi loknu lokast glugginn aftur. Ljósmynd/Aðsend

Marglyttur vilja sporna gegn plastmengun í hafi og eru að safna áheitum fyrri Bláa herinn. Markmiðið með sundferðinni er að vekja athygli á áhrif plastmengunar á lífríki sjávar og mikilvægi þess að vernda auðlindir hafsins en ástand lífríkis í Ermarsundinu er mjög slæmt.

Marglyttur eru að safna áheitum fyrir Bláa herinn í gegnum AUR appið í síma 7889966 einnig er hægt að leggja inn fjárhæð á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219. 

mbl.is