„Það mun ekkert stoppa okkur“

Marglytturnar hafa verið við æfingar í Dover síðan 2. sept­em­ber …
Marglytturnar hafa verið við æfingar í Dover síðan 2. sept­em­ber og eru með sundrétt frá 3. til 10. sept­em­ber. Ljósmynd/Aðsend

„Glugginn er galopinn og við leggjum af stað frá höfninni klukkan sex í fyrramálið,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, skipuleggjandi Marglyttanna, sem hyggjast synda boðsund yfir Ermarsundið. 

Hópurinn þurfti að fresta sundinu um helgina sökum óhagstæðra vinda og mikils öldugangs. Nú eru veðurskilyrði hins vegar eins ákjósanleg og þau gerast og er þetta jafnframt síðasta tækifærið til að hefja sundið, en veður­skil­yrði fyr­ir Ermar­sund hafa verið óvenjuslæm í sum­ar og marg­ir sund­menn þurft að bíða lengi og jafn­vel ekki kom­ist af stað. Marglytturnar hafa verið við æfingar í Dover síðan 2. sept­em­ber og eru með sundrétt frá 3. til 10. sept­em­ber.

„Það mun ekkert stoppa okkur, við erum að fara. Sjórinn er sléttur og fallegur og straumar hagstæðir og sömuleiðis flóð og fjara og allir þættir sem skipta máli,“ segir Soffía. 

Undirbúningur Marglyttanna hefur verið margvíslegur. Hér sjást þær með Guðna …
Undirbúningur Marglyttanna hefur verið margvíslegur. Hér sjást þær með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, þegar þær syntu yfir til Bessastaða í síðasta mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Koma vonandi til lands í Frakklandi í björtu

Sigurlaug María Jónsdóttir verður fyrsta Marglyttan sem stingur sér til sunds og ef allt gengur samkvæmt áætlun mun hún hefja sundið um klukkan hálfsjö að staðartíma, eða klukkan hálfsex í fyrramálið að íslenskum tíma. Áætlaður sund­tími er 16-18 klukku­stund­ir. Hver og ein mar­glytta synd­ir klukku­stund í einu í fyr­ir­fram ákveðinni röð.

„Við vorum mjög svekktar að geta ekki komist af stað á laugardagsnóttina en núna erum við mjög glaðar af því að þessi gluggi er miklu, miklu betri,“ segir Soffía. 

Ef allt gengur samkvæmt áætlun koma Marglytturnar í land í Cap Gris Nez í Frakklandi í björtu seinni partinn á morgun. „Síðan siglum við til baka aftur til Dover og það tekur um tvo tíma, þannig þetta verður ágætis ferðalag,“ segir Soffía. 

Veðurglugginn er knappur sem Marglytturnar hafa til sundsins. Fljótlega að …
Veðurglugginn er knappur sem Marglytturnar hafa til sundsins. Fljótlega að sundi loknu lokast glugginn aftur. Ljósmynd/Aðsend

Þakklátar, bjartsýnar og fullar tilhlökkunar

Þakklæti, bjartsýni og tilhlökkun er Marglyttunum efst í huga skömmu fyrir sundið. „Við erum þakklátar fyrir allar kveðjurnar og að ná að hreyfa við umræðunni um alvarleika plastmengunar í sjónum,“ segir Soffía. 

Mar­glytt­ur vilja sporna gegn plast­meng­un í hafi og eru að safna áheit­um fyrri Bláa her­inn. Mark­miðið með sund­ferðinni er að vekja at­hygli á áhrifum plast­meng­un­ar á lífríki sjávar og mik­il­vægi þess að vernda auðlind­ir hafs­ins en ástand lífríkis í Ermar­sund­inu er mjög slæmt.

Mar­glytt­ur eru að safna áheit­um fyr­ir Bláa her­inn í gegn­um AUR-appið í síma 788-9966, einnig er hægt að leggja inn fjár­hæð á reikn­ing 0537-14-650972, kt. 250766-5219. Hægt er að fylgjast með sundi Marglyttanna á Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert