Vilja lengra gæsluvarðhald yfir kókaínsmyglara

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan 1. september.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan 1. september. mbl.is/Eggert

Gæsluvarðhald yfir lettneskum manni á fertugsaldri sem kom hingað til lands 1. september frá Madrid á Spáni með 700 grömm af kókaíni innvortis rennur út í dag. Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun.

Þetta staðfestir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, við mbl.is.

Maðurinn var stöðvaður af tollgæslu við komuna til landsins í byrjun mánaðar og viðurkenndi fyrir tollvörðum að vera með fíkniefni innvortis. Reyndist hann vera með 700 grömm af kókaíni inni í sér í 70 pakkningum.

„Rannsókn er í fullum gangi, ekki á byrjunarstigi og ekki á lokastigi,“ segir Jón Halldór.

Íslensk lögregluyfirvöld eru í sambandi við lögregluyfirvöld á Spáni. Engir Íslendingar hafa verið handteknir eða yfirheyrðir vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert