Andlát: Loftur Þorsteinsson

Loftur Þorsteinsson.
Loftur Þorsteinsson.

Loftur Þorsteinsson, fyrrverandi oddviti Hrunamannahrepps, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 5. september síðastliðinn, 77 ára að aldri.

Loftur fæddist í Haukholtum í Hrunamannahreppi 30. maí 1942. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Loftsson frá Haukholtum og Ástbjört Oddleifsdóttir frá Langholtskoti. Eldri bróðir Lofts er Oddleifur, f. 1936.

Eftir nám í íþróttaskólanum í Haukadal lauk Loftur búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1961. Hann starfaði um árabil í stjórn Ungmennafélags Hrunamanna og var virkur í leikhópi þess í mörg ár. Bræðurnir Loftur og Oddleifur bjuggu lengi félagsbúi í Haukholtum en skiptu síðan búinu þegar sveitarstjórnarmálin fóru að taka yfir hjá Lofti. Hann var kjörinn í hreppsnefnd Hrunamannahrepps 1978 og sat þar í samtals 24 ár, þar af í 20 ár sem oddviti og sveitarstjóri á miklu uppbyggingartímabili á Flúðum.

Loftur var formaður Sambands sunnlenskra sveitarfélaga 1990-1991 og starfaði í fjölmörgum nefndum og ráðum á vettvangi sveitarstjórna sem og í heimasveit sinni.

Eftirlifandi eiginkona Lofts er Hanna Lára Bjarnadóttir frá Hörgsdal á Síðu. Börn þeirra eru Þorsteinn, f. 1981, Magnús Helgi, f. 1983, og Berglind Ósk f. 1987. Fyrir átti Hanna Lára Edvin, f. 1971, og Ólaf Bjarna, f. 1973. Barnabörnin eru nú orðin níu talsins.

Útför Lofts fer fram frá Skálholtsdómkirkju föstudaginn 20. september klukkan 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert