Óákveðið hvort dómurum verði fjölgað

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir nauðsynlegt að Landsréttur verði starfhæfur á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir nauðsynlegt að Landsréttur verði starfhæfur á meðan yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu fjallar um landsréttarmálið svokallaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það mjög jákvætt að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) hafi ákveðið að fjalla um lands­rétt­ar­málið svo­kallaða, sem fjall­ar um það hvernig staðið var að skip­un fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt. 

„Mér fannst eðlilegt að óska eftir meðferð, sérstaklega í ljósi þess að dómurinn er fordæmislaus og ekki einróma. Mér finnst jákvætt að yfirdeildin hafi tekið þetta til meðferðar alveg óháð því hver niðurstaðan verður því það skiptir máli að fá endanlega niðurstöðu í þetta mál,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. 

Dóm­stóll­inn komst að þeirri niður­stöðu í mars að ís­lenska ríkið hefði brotið gegn sjöttu grein Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við skipan fjögurra dómara við Landsrétt sem voru ekki metnir meðal 15 hæfustu af sérstakri hæfisnefnd. 

Dóm­ar­arn­ir fjór­ir hafa ekki dæmt við rétt­inn frá því að MDE kvað upp dóm sinn í mars. Tveir óskuðu eft­ir launuðu leyfi til ára­móta en hinir ekki. Því hef­ur ein­ung­is verið ráðið í stöður dóm­ar­anna tveggja sem óskuðu eft­ir leyfi.

Aðgerðir vegna Landsréttar í höndum dómsmálaráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi landsréttarmálið á ríkisstjórnarfundi í morgun. „Hún hyggst fara yfir stöðuna hjá Landsrétti þar sem 13 af 15 dómurum eru að dæma. Ég vænti þess að hún muni síðan gera tillögu til ríkisstjórnar hvernig hún metur stöðuna hjá dómnum og hvort ástæða sé til að bregðast við,“ segir Katrín. 

Málsmeðferð getur tekið allt að tvö ár og hefur Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, kallað eftir aðgerðum stjórn­valda, til dæm­is með því að fjölga dómur­um við Lands­rétt var­an­lega. Katrín getur ekki sagt til um á þessum tímapunkti hvort af því verði. 

„Rétturinn þarf að vera starfhæfur og þá þurfum við að hafa fyrirliggjandi hver málastaðan er miðað við þá stöðu sem er uppi núna með 13 dómara að dæma,“ segir Katrín. 

Áslaug Arna sagði í samtali við mbl.is í gær að hún hefði nú þegar óskað eft­ir upp­lýs­ing­um um fjölda mála og stöðu þeirra við Lands­rétt.

mbl.is