Þingið sett í dag

Setning Alþingis fer fram í dag og hefst að vanda með guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst klukkan 13:30. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga þá fylktu liði til kirkjunnar úr alþingishúsinu.

Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson predikar við guðþjónustuna og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Dómorganistinn Kári Þormar leikur á orgel og Kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Þegar guðsþjónustunni er lokið ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur þá Alþingi, 150. löggjafarþing, og félagar í Schola cantorum syngja við þingsetningarathöfnina, undir stjórn Harðar Áskelssonar. Þá flytur forseti Alþingis ávarp.

Þingsetningarfundi verður síðan frestað til klukkan 16:00. Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 útbýtt.

mbl.is

Bloggað um fréttina