Þurfa að synda í gegnum stóran olíuflekk

Boðsund Marglyttanna yfir Ermasundið gengur vel að sögn Soffíu Sig­ur­geirs­dótt­ur skipu­leggj­anda. „Það gengur bara vel,“ segir hún en Marglytturnar lögðu af stað frá Dover um sexleytið í morgun og hafa nú verið á sundi í rúma fimm tíma.

„Nú er stutt í að Brynhildur Ólafs, sem lagði síðast af stað, klári. Þá eru allar búnar að synda einu sinni,“ segir Soffía og kveður þær eiga næga orku eftir.

Marglytturnar eru nú allar að verða búnar að synda einu …
Marglytturnar eru nú allar að verða búnar að synda einu sinni. Ljósmynd/Marglytturnar

„Þær eru að spila tónlist á bátnum og hlæja bara og skemmta sér,“ segir hún og kveður jákvætt og gott viðmið að engin þeirra sé búin að æla. „Það er þó einhver velgja. Þórey Vilhjálmsdóttir var einmitt að koma upp úr og henni var smá flökurt.“ Soffía bætir við að Marglytturnar séu þó allar vel útbúnar með sjóveikiplástrum.

Ein fjölfarnasta siglingaleið Evrópu

„Núna eru þær komnar vel út á Ermarsundið og þar er bara spegilsléttur sjór. Það hjálpar gríðarlega að þær þurfi ekki að berjast öldurnar.“ Hóp­ur­inn hafði þurft að fresta sund­i sínu um helg­ina sök­um óhag­stæðra vinda og mik­ils öldu­gangs. 

Soffía segir þó alltaf undirliggjandi strauma á stöðum sem þessum og þá sé skipatraffíkin mikil og þeim fylgi líka öldur. „Þetta eru risastór flutningaskip sem þær eru að synda með allt í kringum sig, enda er þetta ein fjölfarnasta siglingaleið í Evrópu.“ Soffía bætir við að olía og leki frá skipunum setji þá líka svip á sjóinn.

Ljósmynd/Marglytturnar

„Síðan er mjög stór olíuflekkur á Ermarsundinu sem þær þurfa að synda í gegnum og það verður áskorun.“ Til að takast á við olíuna setja Marglytturnar Tiger Balm við vitin til að hreinsa skynfærin, enda olían „andstyggileg“ að sögn Soffíu. Þá eru þær með hreinsiklúta, tyggjó og taílensk jurtalyf til að taka á olíunni.

Marglytturnar eru líkt og áður segir nú búnar að synda í fimm tíma og fara því að nálgast þriðjung leiðarinnar. „Þetta eru 16-18 tímar sem við horfum til,“ segir Soffía og kveður þær vera örlítið á eftir áætlun. „Mér sýnist þetta þó vera nokkuð gott,“ bætir hún við. „Þær eiga nóga orku inni og njóta sín.“

Stór flutningaskip sigla allt í kringu um Marglytturnar.
Stór flutningaskip sigla allt í kringu um Marglytturnar. Ljósmynd/Marglytturnar

Mar­glytt­ur vilja sporna gegn plast­meng­un í hafi og eru að safna áheit­um fyr­ir Bláa her­inn. Mark­miðið með sund­ferðinni er að vekja at­hygli á áhrif­um plast­meng­un­ar á lífríki sjávar og mik­il­vægi þess að vernda auðlind­ir hafs­ins en ástand lífríkis í Erm­ar­sund­inu er mjög slæmt.

Hægt er að heita á Bláa her­inn í gegn­um AUR-appið í síma 788-9966, einnig er hægt að leggja inn fjár­hæð á reikn­ing 0537-14-650972, kt. 250766-5219. Hægt er að fylgj­ast með sundi Mar­glytt­anna á Face­book

Soffía segir þær eiga næga orku eftir og njóta sín …
Soffía segir þær eiga næga orku eftir og njóta sín vel um borð í bátnum. Ljósmynd/Marglytturnar
mbl.is