Þyrlan bjargaði tveimur úr bát sem strandaði

Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar skömmu eftir miðnætti í nótt þegar neyðarkall barst frá handfærabát sem hafði strandað í nágrenni Skála á sunnanverðu Langanesi.

Tveir voru um borð í bátnum sem hafði strandað undir bjargi og var því ekki hægt að komast landleiðina að honum.

Þyrla Gæslunnar var því send á vettvang ásamt björgunarsveitum á Norðurlandi sem fóru á björgunarbátum frá Þórshöfn og Bakkafirði. Skip sem voru á sjó í nágrenninu voru einnig beðin að halda á staðinn.

Varðstjóri hjá Landhelgisgæslunni segir í samtali við  mbl.is að aðstæður á strandstað hafi ekki verið björgulegar. „Það var kominn björgunarbátur frá björgunarsveitinni Hafliða á staðinn, en hann komst ekki að bátnum út af grjóti og brimi,“ segir hann.

Mennirnir, sem voru óslasaðir, voru því hífðir um borð í þyrluna og fluttir til Akureyrar. Aðstæður á strandstað verða skoðaðar betur er birtir.

mbl.is