Vísað úr landi eftir 18 daga hungurverkfall

Amin Ghayszadeh var í hungurverkfalli og hefur verið vísað úr …
Amin Ghayszadeh var í hungurverkfalli og hefur verið vísað úr landi.

Amin Ghayszadeh, sem var í hungurverkfalli vegna yfirvofandi brottvísunar úr landi, var vísað úr landi í morgun til Grikklands. Þetta staðfestir Magnús Davíð Norðdahl lögmaður Amins við mbl.is. Hvorki var haft samband við Magnús né aðstandendur hans. 

Amin hefur átt við ýmis heilsufarsleg vandamál að stríða í mörg ár og var á 18. degi hungurverkfalls til að mótmæla yfirvofandi brottvísun til Grikklands. 

Magnús gagnrýnir að enginn fyrirvari hafi verið gefinn á brottvísuninni. Samkvæmt þeim verklagsreglum sem birtar eru á vefsíðu Útlendingastofnunar skal leitast við að tilkynna viðkomandi nákvæma dagsetningu brottfarar eins fljótt og unnt er, helst að lágmarki með tveggja daga fyrirvara eða strax og dagsetning brottfarar liggur fyrir.

Í störfum sínum segir Magnús að fyrirvari sé gefinn barnafjölskyldum en ekki sé hægt að segja sömu sögu þegar einstaklingar eiga í hlut. 

„Þannig virðist því miður vera til staðar tiltekið misræmi við málsmeðferð stoðdeildar við undirbúning og framkvæmd lögreglufylgdar úr landinu. Æskilegt væri að allir fengju lágmarksfyrirvara, sérstaklega þegar um er að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu,“ segir Magnús í yfirlýsingu vegna málsins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina